Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Góðar ferðamálafréttir - ferðmenn opna veskin

Ferðamennska getur skilað Íslendingum verulegum verðmætum og okkur skylt að sinna henni eins og best verður á tímum eins og nú. Höfuðborgarstofa sér um samstarf á vettvangi ferðamála fyrir Reykjavíkurborg. Nú er svo komið að metfjöldi ferðamanna heimsótti Upplýsingamiðstöð ferðamanna á haustmánuðum, en Höfuðborgarstofa rekur miðstöðina. Eftirfarandi upplýsingar koma frá Höfuðborgarstofu:

Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík tók á móti 30% fleiri gestum í september, október og nóvember 2008 ef bornir eru saman mánuðir milli ára 2007 og 2008. Desembermánuður sló hins vegar öll fyrri met um aukinn gestafjölda með 43% fjölgun heimsókna miðað við 2007.  Þrátt fyrir að fjölgun erlendra ferðamanna yfir allt árið 2008 hafi verið minni en undanfarin áratug, eða um 3% í stað um það bil 8% fjölgun að jafnaði sl. 10 ár samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu, virðist sem þeir leiti meira til upplýsingamiðstöðva og bóki þar sínar ferðir, gistingu og aðra þjónustu.  Er það í takt við þá þróun í ferðaþjónustu, bæði hérlendis og annarstaðar, að ferðamenn verða sífellt sjálfstæðari í sinni skipulagningu auk þess sem þeir eru hvatvísari í sínum ferðakaupum og kaupa til að mynda helgarferð með afar skömmum fyrirvara ef hún gefst á hagstæðu verði.

Starfsfólk upplýsingamiðstöðvarinnar telur að óvenju mikið sé um erlenda ferðamenn um þessar mundir, á árstíma sem alla jafna er fremur rólegur í ferðaþjónustu.  Þeir séu spenntir  fyrir hefðbundnum kynnisferðum, svo sem í Bláa lónið og á Gullfoss og Geysi. Einnig er mikið spurt um norðurljósin og ýmsar ferðir þeim tengdar. Þá er einnig mikið spurt um söfn og sýningar af ýmsu tagi, lifandi tónlist, veitingastaði, sundlaugar og heimsóknir í heilsulindir. Ennfremur seljast dýrari ferðir, svo sem jeppaferðir með fáa farþega, betur nú en oft áður og að fólk setji verðlagið síður fyrir sig.

Endurgreiðsla á virðisauka til erlendra ferðamanna jókst að sama skapi gríðarlega og því ljóst að sala á ýmsum vörum til þessa hóps hefur aukist mikið. Endurgreiðsla Iceland Refund í upplýsingamiðstöðinni í október og nóvember jókst að meðaltali um 194% milli ára 2007 og 2008. Í takt við metfjölda í upplýsingamiðstöðinni í desember varð alger sprengja í endurgreiðslu virðisauka til erlendra ferðamanna í þeim mánuði eða 400% og því líklegt að töluvert margir hafi keypt jólagjafir í borginni áður en haldið var heim.




Samfylkingin og stormurinn

Tek algjörlega undir ályktun SUS stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna sem er svohljóðandi:

"SUS harmar tilgangslaus stjórnarslit

Samband ungra sjálfstæðismanna harmar þá ömurlegu atburðarás sem orðið hefur til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar mun fara frá völdum. Ljóst er að málefnalegur ágreiningur varð ekki til þess að fella samstarfið. Ótrúlega óskammfeilin kröfugerð Samfylkingarinnar á hendur Sjálfstæðisflokknum á síðustu dögum er augljós fyrirsláttur. Hið raunverulega markmið Samfylkingarinnar var að knýja fram stjórnarslit. Þetta gerist jafnvel þótt formaður Sjálfstæðisflokksins hafi fallist á að boðað yrði til kosninga 9. maí.

Það er forystu Geirs H. Haarde að þakka að tjónið af kerfishruni bankanna varð ekki meira en raunin hefur orðið. Með aðgerðum í kringum hrun bankanna var tryggt að eðlileg viðskipti gætu áfram átt sér stað í landinu og rask af völdum þessara hamfara var lágmarkað. Þetta skipti höfuðmáli fyrstu dagana eftir hrunið. Síðan hefur markvisst verið unnið að áætlunum um endurreisn fjármálakerfisins í samstarfi við alþjóðlega sérfræðinga og stofnanir. Traust tök Geirs H. Haarde á þeim stóru málum sem þurfti að bregðast við hafa verið þjóðinni til happs, en hafa verður í huga að umfang vandans er líklega án fordæmis í heiminum á friðartíma. Í þessu ljósi munu aðgerðir Geirs H. Haarde verða metnar þegar fram líða stundir.

Sú taugaveiklun og ístöðuleysi sem Samfylkingin hefur sýnt á síðustu vikum er uggvekjandi fyrir íslenskt samfélag. Ástand þjóðmála er grafalvarlegt og heimurinn allur stefnir í alvarlega efnahagslægð. Við þær aðstæður verður mörgum órótt og stoðir samfélagsins svigna undan því álagi sem hvílir á einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Undir þessu álagi hafa forystumenn Sjálfstæðisflokksins staðið. Geir H. Haarde hefur sýnt að aldrei myndi hann skorast undan þeirri skyldu sem hann tók að sér sem forsætisráðherra og um heilindi hans hefur aldrei nokkur þurft að efast. Samfylkingin reyndist hins vegar vera sú kvísl sem fyrst brotnaði undan storminum þrátt fyrir að standa í miklu skjóli af forsætisráðherra.

Á meðan forystumenn Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hafa unnið að uppbyggingu þá hefur stór hluti Samfylkingarinnar beint kröftum sínum í innbyrðis sundrungu og taugaveiklun. Því miður hefur Samfylkingin brugðist þjóðinni og sjálfri sér með þeirri tækifærismennsku og klækjum sem nú hafa hrakið þjóðina út í tilgangslaus stjórnarskipti og pólitíska óvissu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú ráðrúm til að hefjast handa við að vekja enn á ný traust á að frelsi einstaklingsins til orðs og æðis sé hornsteinn mannvænlegs samfélags og að Ísland eigi að vera bæði frjálst og opið.

f.h. stjórnar SUS

Þórlindur Kjartansson"

 

Styrkir menningar - og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar

Á síðasta fundi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar 22. janúar s.l. var samþykkt að styðja kröftuglega við ýmis spennandi og metnaðarfull verkefni á sviði menningar og lista árið 2009.

Jafnframt voru samþykktir nýir samstarfssamningar vegna ársins 2009. Þegar eru í gildi rúmlega 40 samstarfssamningar er gerðir voru á fyrri árum og nemur sá stuðningur rúmum 43 m.kr. ár árinu. Til úthlutunar voru nú kr. 40.8 mkr. 

Elektra Ensemble var valinn Tónlistarhópur Reykjavíkur árið 2009 og hlýtur þess vegna styrk sem nemur 1.8 milljónum króna. Hópinn skipa fimm ungir hljóðfæraleikarar sem allir hafa komið fram sem einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og stundað framhaldsnám erlendis. Hópurinn hefur leikið saman í rúmt ár og er með áhugaverða tónleikaröð í bígerð fyrir árið 2009.  Næst stærstu styrkina  kr. 900.000 hljóta leikhópurinn Lab Loki sem vinnur að uppsetningu leikverksins Ufsagrýlur eftir Sjón og Strengjaleikhúsið til að frumflytja óperuna Farfuglinn eftir Hilmar Þórðarson  í samvinnu við Tónlist fyrir alla. Samtals voru veittir 36 styrkir og 26 samstarfssamningar. Af  stærstu samstarfssamningum fyrir árið 2009 hlýtur Nýlistasafnið 4.8 milljónir, leikhópurinn Vesturport 2.9 milljónir, Listasafn Sigurjóns Ólafssonar 2.8 milljónir og tónlistarhópurinn Caput 2 milljónir.

Menningar- og ferðamálaráð hefur til hliðsjónar tillögur sérstaks faghóps sem skipaður er af aðilum tilnefndum af BÍL (Bandalagi íslenskra listamanna) um hverjir ættu að fá styrki eða hljóta samstarfssamning.  Aðeins voru veittir styrkir til þeirra aðila sem faghópurinn mælti með.  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband