Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Stefnumótun - Menning, mannréttindi og jöfn tækifæri kvenna og karla

Áfram held ég að setja hér inn drög að stefnumótun Sjálfstæðisflokksins sem lögð verður fyrir landsfund nú seinna í febrúar. Þar munu að sjálfsögðu kom fram fjölmargar breytingartillögur sem kosið verður um.  Þessi kafli er hluti af ályktun allsherjar og menntamálanefnd flokksins. 

Menning
Mikilvægt er að halda áfram að hlúa að lista- og menningarlífi þjóðarinnar og standa vörð um menningarstofnanir, þar sem mikil þekking og reynsla býr. Með kynningu íslenskrar menningar má gefa jákvæða mynd af landi og þjóð og í henni geta falist fjölbreytileg verðmæti.

Opinber stuðningur við lista- og menningarstarfsemi, eins og aðrar atvinnugreinar, sé ævinlega gegnsær og byggður á traustum faglegum og fjárhagslegum forsendum. Lög um listamannalaun verði endurskoðuð, m.a. með það að markmiði að taka upp verkefnatengda listsköpunarsjóði. Heiðurslistamannalaun verði lögð niður.

Fjölmiðlar eru snar þáttur í daglegu lífi fólks. Sjálfstæði þeirra og trúverðugleiki er mikilvægur til að tryggja lýðræðislega umræðu. Mikilvægt er að lög um fjölmiðla verði endurskoðuð og  settar verði strangari reglur um gegnsæi varðandi eignarhald þeirra.  Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og RÚV verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna. Stefna skal að því að íslensk dagskrárgerð standi jafnfætis dagskrárgerð á Norðurlöndum. Menningararfur sá sem RÚV hefur umsjón með verði gerður aðgengilegur almenningi.


Mannréttindi
Mikilvægt er að draga úr og sporna gegn hvers kyns ofbeldi. Gegna þar forvarnir miklu máli. Jafnframt þarf að horfa sérstaklega til heimilisofbeldis, kynbundins ofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Styðja þarf félagasamtök og stofnanir sem sinna þessum málaflokki.

Sjálfstæðisflokkurinn vill búa vel að innflytjendum og sjá til þess að þeir njóti jafnra tækifæra á við aðra þjóðfélagsþegna og gera þeim þannig kleift að verða hluti að samfélaginu. Mikilvægt er að sjá til þess að innflytjendur verði ekki einangraður minnihluti samfélagsins, en hægt er að fyrirbyggja slíkt með markvissum aðgerðum. Stefnumótun stjórnvalda, upplýsingagjöf og fræðsla leika þar lykilhlutverk. Mikilvægt er að hvetja innflytjendur til að læra íslensku. Vald á tungumálinu og þekking á grunnstoðum þjóðfélagsins er mikilvægur þáttur í aðlögun að íslensku samfélagi.


Jöfn tækifæri kvenna og karla
Landsfundur vill tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Laun eiga að endurspegla hæfni, ábyrgð, vinnuframlag og frammistöðu launþega en ekki kyn. Þrátt fyrir ný jafnréttislög hefur óútskýrður launamunur karla og kvenna farið vaxandi á líðandi kjörtímabili. Á þessum vettvangi þurfa ríki og sveitarfélög að fara á undan með góðu fordæmi og tryggja að hvergi í hinu opinbera kerfi líðist óútskýrður launamunur kynjanna.

 


Stefnumótun í málefnum aldraðra

Nú líður að landsfundi sjálfstæðismanna og fjöldi fólks hefur verið að störfum til að undirbúa fundinn. Fyrir fundinum liggja nokkrar ályktanir.  Í ályktun um velferðarmál er fjallað um málefni aldraðra og ég læt þennan kafla fylgja hér fyrir neðan til upplýsinga og athugasemda.  

Áherslur í málefnum aldraðra:

Landsfundur leggur áherslu á rétt aldraðra sem allra landsmanna til þess að njóta bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Í því felst, að hver einstakur fái þjónustu á því stigi, sem þarfir hans segja til um.

Mikil fjölgun aldraðra á komandi árum kallar á fleiri úrræði eins og skilgreindar öryggis- og þjónustuíbúðir, þar sem hjón geta verið undir sama þaki, þótt annað þeirra sé á hjúkrunardeild.

Landsfundur tekur undir kröfu kjaramálanefndar Landssambands eldri borgara um að „vasapeningafyrirkomulagið“ verði afnumið og áréttar í því sambandi, að tafarlaust verði að hækka þær greiðslur, sem einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum hafa til ráðstöfunar í samræmi við hækkanir á bótum almannatrygginga.

Nauðsynlegt er að endurskoða bætur almannatrygginga í heild sinni út frá þeirri grunnforsendu, að um leið og öllum séu tryggðar lágmarkstekjur til lífsviðurværis verði að gæta þess, að ekki sé dregið út hvatanum til sjálfsbjargar. Það er frumréttur einstaklingsins sem ekki má ganga gegn.

Landsfundur vill að eftirfarandi verði skoðað ítarlega:

1. Aldraðir sem eru á dvalarheimilum, haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Þeir vilja halda reisn sinni en eins og kerfið er byggt upp er sjálfsvirðingu þeirra misboðið og þeir  veigra sér við að þiggja þá þjónustu.

2. Sú kjaraskerðing, sem eldri borgarar urðu fyrir 1. júlí 2009 verði afturkölluð, sem m.a. felst í því að aldraðir haldi óskertum grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

3. Að Tryggingastofnun ríkisins hætti tafarlaust að skerða ellilífeyri vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum krónu fyrir krónu. Slík háttsemi ríkisvaldsins heitir að fara ránshendi um eigur eldri borgara og er til þess fallin að draga úr trausti á lífeyrissjóðskerfinu. Við upphaf lífeyrissjóða var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir yrðu viðbót við almannatryggingar.

4. Þeir, sem náð hafa 70 ára aldri, geti aflað sér atvinnutekna án þess að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist.

5. Ellilífeyrir sé leiðréttur til samræmis við þær hækkanir, sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009.

6. Verðbótaþáttur vaxta valdi ekki skerðingum hjá Tryggingastofnun ríkisins.

7. Lögum um almannatryggingar verði breytt á þann veg, að aldraðir geti selt eignir sínar án þess að andvirði þeirra skerði greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Það felur í sér að þeir greiða skatta og skyldur af eignasölunni en verður ekki íþyngt umfram aðra þegna þjóðfélagsins.

8. Í samvinnu við lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins er nauðsynlegt að finna leiðir til þess að það sé mögulegt og eftirsóknarvert fyrir aldraða að vera lengur úti á vinnumarkaðnum. Með því móti verða lífsgæði þeirra meiri. Eftir vinstri stjórn verður þörf fyrir atvinnuþátttöku aldraðra í þjóðfélaginu.

Heimaþjónusta verði veitt samkvæmt viðurkenndu þjónustumati frá heilsugæslustöð (þjónustumiðstöð) og eflist með auknum aldri. Hér er átt við hefðbundna heimilishjálp og heimahjúkrun, auk heilsueflingar til sálar og líkama. Einnig ráðgjöf um réttindi og hvaða þjónusta sé í boði. Heimilishjálp greiðist af notanda (a.m.k. að hluta) en heimahjúkrun af opinberu fé. Áhersla sé á að eldri borgarar geti búið sjálfstæðu lífi á eigin heimili sem lengst og fái þar þá þjónustu sem þörf er á.

Ef aldraðir þurfa vegna heilsuleysis að flytjast af eigin heimili til hjúkrunar í þjónustuhúsnæði (dvalarheimili / hjúkrunarheimili), á að gera þjónustusamning þar sem allur kostnaður við upphald og umönnun komi fram, þ.m.t. allur kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, lækningatækja og hjálpartækja.

Skilgreina þarf upp á nýtt hver kostnaðarskipting viðkomandi einstaklings/opinberra aðila á að vera. Þar ber að stefna að því að notandi beri kostnað af sérfræðiþjónustu, lyfjum, hjúkrunarvörum, lækninga- og hjálpartækjum með sama hætti og þegar búið var heima. Almenn heilbrigðisþjónusta verði kostuð af opinberu fé. Við ákvörðun kostnaðarskiptingar þarf að hafa í huga að ekki má ganga á lífeyrisréttindi einstaklinga til greiðslu þessarar þjónustu með sama hætti og tíðkað hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Boðið verði upp á fjölbreytt rekstrarform í heimaþjónustu og á dvalarheimilum / hjúkrunarheimilum sem byggist á þjónustusamningum við hið opinbera. Þjónustusamningar taki mið af þarfalýsingu með lágmarksviðmiðum um þjónustu, og húsnæði. Notendur geti keypt ýmsa þjónustu umfram lágmarksviðmiðin að eigin vali, þ.m.t. stærra húsnæði, valkosti í máltíðum og ýmsa persónubundna viðbótarþjónustu.

Þessi kafli var unnin í samráði við fjölda fólks og samtök eldri sjálfstæðismanna..


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband