Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Að skipta sköpum

Í heiðni var talið að skapanornir réðu því hvernig mönnum vegnaði í lífinu. Orðatiltækið að skipta sköpum þýðir að örlögum nornanna má breyta. Fjölmargar vísbendingar liggja nú fyrir og benda okkur á að gera eitthvað sem skiptir sköpum. Ef okkur tekst ekki vel upp þá siglum við inn í tímabil stöðnunar og hrakandi lífsgæða. Örlagavaldarnir sem við ættum því nú að biðla til eru menntun, nýsköpun og vísindi.

Hámarksnýting
Fjárveitingar til rannsókna og nýsköpunar verða að nýtast sem best. Samhæfa þarf umhverfi ríkisstofnana, þar á meðal háskólanna og ryðja þeim hindrunum úr vegi sem nú koma í veg fyrir sveigjanleika í stjórnun og verkefnum þeirra sem stunda rannsóknir og þróun. Mikilvægt er að ekkert í rekstrarumhverfinu hamli samstarfi.

Hraðari verðmætasköpun
Þrátt fyrir góðan afrakstur vísindastarfs og að meira fé sé varið til málaflokksins en í mörgum samanburðarlöndum er verðmætasköpun ekki eins hröð og ætla mætti hér á landi. Því er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum mun markvissar á markaðslegum forsendum til að stuðla að örari þróun.

Þá ber að nefna að Sjálfstæðisflokkurinn vill að þeir sem stunda rannsóknir, háskólar, fyrirtæki og einstaklingar, fái að njóta sjálfsaflafjár á sambærilegan hátt og gerist annars staðar. Slíkt myndi gera íslensku rannsóknarumhverfi kleift að standa jafnfætis erlendri samkeppni og samstarfi.

Rétt stefna að góðri uppskeru

Fyrir rúmum áratug var mörkuð stefna í þessum málum einmitt af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Afraksturinn varð samningur milli ríkis og háskólafólks. Þar var rétta stefnan tekin. Það mikilvæga er nú að vísbendingar eru um að áhugi fjárfesta sé vakinn og fjármagn vilji inn í landið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað sér skýra stefnu hvað örlagavaldana: menntun, nýsköpun og vísindi, snertir og vill vinna áfram að góðri uppskeru. Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn á laugardaginn skiptir því sköpum.

Húmor í baráttuna :-)

Ungir sjálfstæðismenn hafa gefið út nokkur myndbönd til að útskýra fyrir öðru ungu fólki af hverju þeim finnst að aðrir eigi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Endilega kíkið á þetta þegar þið hafið tíma.

 

     


XD og Evrópa

Ég er ein af þeim sem held að það verði samþykkt að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrátt fyrir að ég haldi að niðurstaðan verði sú finnst mér ástæða til að fara í atkvæðagreiðsluna.  Verði það samþykkt skapast góður grunnur fyrir viðræðurnar annað en nú er til staðar.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að hann vilji að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram fyrr en seinna. Til dæmis megi miða við næstu sveitarstjórnarkosningar.

Ég er líka ein af þeim sem sjá að það er réttlætanlegt að stöðva viðræður áður en fullt umboð liggur fyrir frá þjóðinni. Samfylkingin lofaði í aðdraganda síðustu kosninga að við fengjum flýtimeðferð að þetta tæki bara nokkra mánuði og allt lægi fyrir, fyrr en seinna, hviss bamm búmm! Nú er ljóst að þetta getur tekið langan tíma, enn eru margir kaflar óopnaðir og því þarf að skoða hvaða staða er upp komin. Það er því óeðlilegt að við könnum ekki afstöðu þjóðarinnar áður.

Um daginn skrifaði Anna Guðrún Björnsdóttir hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga grein þar sem hún tiltekur kostnaðinn sem bandalagið hefur lagt í að fá til sín sveitarstjórnarfólk, koma því til Brussel til að kynna fyrir þeim starfsemi og annað slíkt. Allt í boði bandalagsins ferðir og dagpeningar. Til viðbótar gefst sveitarfélögum kostur á að sækja um styrki til ýmissa verkefna. Þetta eru háar fjárhæðir og ljóst að um leið verða að sjálfsögðu hagsmunaárekstrar. Þeim sem eru algjörlega sannfærðir um að við munum og eigum aldrei að fara í bandalagið finnst á sér brotið, þarna sé um áróðursfé að ræða og telja stöðuna sem komin er upp mjög ósanngjarna.

Ég er á því að farsælast sé að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna um hvort klára eigi aðildarviðræðurnar sem fyrst annars verði aldrei næg sátt um málið.


Vondu og góðu krónurnar!

Fólk verður að átta sig á þessu. Það stenst ekki skoðun að munurinn á tillögunum milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks gangi út á það að Framsókn vilji láta vogunarsjóði borga en Sjálfstæðismenn vilji láta fólk sjálft borga. Það eru ekki til neinar vondar krónur og góðar krónur, þetta kemur alltaf úr sama sjóði eða einfaldlega ríkissjóði.


Bjarni Benediktsson gerir góða grein fyrir þessu í útvarpi í gær sjá hér hvet ykkur til að hlusta á viðtalið sem er stutt og laggott.


Sjálfstæðisflokkurinn vill leiðrétta skuldastöðu í gegnum afslátt af skatti og það vill hann hefja strax að loknum kosningum ekki bíða eftir því að koma hugsanlegum eignum úr þrotabúum í verð og sjá hver staðan verður þá. Þetta getur tekið mörg ár. Augljóst er að koma þarf til móts við heimilin og það án þess að skilyrða þær endurgreiðslur við önnur viðskipti. 

Báðir flokkar vilja taka hart á samningum við kröfuhafa og vonandi verður sú eignamyndun sem þar fæðist til að koma til móts við heimilin og ekki síður til að rétta ríkissjóð af. 

 


Væntingar og vonleysi

Munurinn á tillögum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkurinn vill taka tillögurnar upp strax - ekki bíða eftir því að samið verði við vogunarsjóði sem enginn veit hversu langan tíma tekur.

Sjálfstæðisflokkurinn er með tillögur sem vitað er hvernig má framkvæma - Framsóknarflokkurinn fjallar um skuldir þeirra sem tóku lán á einhverju árabili án þess að nefna skýrt við hvað átt er. 

Sjálfstæðisflokkurinn notar hugtakið skattaafslátt sem að sjálfsögðu þýðir að minna verður til í ríkissjóði en er með sterka efnahagsstefnu sem mun koma atvinnulífinu af stað sem skilar tekjum til ríkissjóðs eða minnkar útgjöld ríkissjóðs að sama skapi. Framsóknarflokkurinn talar um að afsláttur af greiðslum til vogunarsjoða verði notaður til að leiðrétta stökkbreytt lán. Áður en að hægt er að nota þetta fé verður það að sjálfsögðu komið í ríkisssjóð. Þannig að um greiðslur úr ríkissjóði er alltaf að ræða.

Framsóknarflokkurinn skrúfar væntingavísitöluna upp úr öllu valdi og líklegt er að vonbrigðin verði á pari við væntingar og vonleysi það sem Skjaldborgarstjórnin skilaði. Vonandi er fólk að átta sig á þessu. 

 

Raunhæfar tillögur Sjálfstæðisflokksins eru hér.


52% í skatta og gjöld

Síðustu ár hafa ráðstöfunartekjur meðalfjölskyldu lækkað um eina milljón króna vegna ofur álagningar og skatta. Heimilin ráða ekki við þetta. Það sama á við í atvinnulífinu. Ljóst er að skattahækkanir á fjölskyldur og fyrirtæki hafa ekki skilað því sem til var ætlast og algjörlega nauðsynlegt er að snúa af þessari röngu braut. Hér er mynd sem ég leyfi mér að deila en ungir sjálfstæðismenn tóku þetta saman úr gögnum frá Hagstofu Íslands og Fjármálaeftirlitinu.

Myndin sýnir í hvað tekjur heimilanna fara að meðaltali og hvað það er sem er að sliga fólk - skattar og opinber gjöld eru 52% - Úff!

skattakakan.jpg


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband