Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Sanngirni, móðganir og fegrunaraðgerðir

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga fer nú fram. Í morgun kom glöggt fram hjá formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga að erfiðleikar eru í samstarfi sveitarfélaga við ráðherra ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega fjármálaráðherra.

Ósanngirni ríkisstjórnarinnar
Þarna nefndi formaðurinn sem dæmi að ríkisstjórnin sýni engan vilja til að koma til móts við gífurlegan kostnað sem hljótast mun af því þegar 1800 manns munu missa atvinnuleysisbótarétt um áramót. Ákveðinn fjöldi mun þá þurfa að leita til sveitarfélaganna um fjárhagsaðstoð til framfærslu. Fram kom að hér væri áætlað að kostnaður sveitarfélaga myndi þá fara úr 2,6 milljörðum króna og í 5-5,5 milljarða króna.

Á sínum tíma þegar atvinnuleysi jókst þótti sanngjarnt að sveitarfélögin tækju meiri þátt í greiðslu tryggingagjalds. Sveitarfélögin féllust á þetta. Nú hins vegar hefur dæmið snúist við. Ljóst er að atvinnuleysistölur Hagstofunnar lækka en það er vegna þess að atvinnulausir teljast nú skjólstæðingar sveitarfélaganna. Ástæðurnar hefur ríkisstjórnin hins vegar á ósvífin hátt  talið vera ótrúlegan eigin árangur. Sveitarstjórnarmenn vita að svo er ekki. Og nú telur ríkisstjórnin hins vegar engan veginn hægt að horfa til sanngirnissjónarmiða og fellst ekki á það að nú eigi sveitarfélögin að greiða minna tryggingargjald! Ósvífni og óbilgirni sagði formaðurinn og sveitarstjórnarmenn taka undir það.

 

Móðgaður fjármálaráðherra móðgar sveitarstjórnarfólk
Næst steig fjármálaráðherra á stokk og átaldi formann Sambandsins fyrir að hafa talað um óbilgirni og taldi formanninn hafa móðgað sig. Í kjölfarið vindur ráðherra sér í að kynna nýjustu útgáfu ríkisstjórnarinnar: Ríkisbúskapurinn 2013-2016. Það er mál manna hér á fundinum að önnur eins fegrunartilraun hafi varla sést og það á kostnað skattborgara. Í ritinu er ekki orði minnst á hið dulda atvinnuleysi sem sveitarfélögin bera. Hvergi talað um að hagvöxturinn sem drifinn er af einkaneyslu sé fjármagnaður með skuldasöfnun. Ritið endurspeglar svo ótrúlega vel hversu ósvífin og óbilgjörn þessi ríkisstjórn er. Sem betur fer styttist í kosningar.


Ríkisstjórnin er fallin!

Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson var með fund í Valhöll í morgun þar sem hann fór yfir stærstu atriðin í aðdraganda kosninga. Vel var mætt og fundurinn góður.

Aukin jöfnuður  eða hærri laun fyrir alla tekjuhópa.
Farið var yfir hverju skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur skilað. Eins og alþjóð veit hefur ríkisstjórnin haldið því fram sigri hrósandi að hafa aukið jöfnuð og vinstri menn fagna. En hvert er markmið þeirra með auknum jöfnuði. Í ljós kemur að ríkisstjórnin  hefur með skattastefnunni lækkað laun láglaunafólks þó að laun hálaunafólks hafi lækkað enn meira. Niðurstaðan er því – allir tapa. Er það markmiðið með jafnaðarstefnunni? Furðulegt er að fólk sjái ástæðu til að fagna þessu.


Minna atvinnuleysi en færri störf
Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að atvinnuleysi hafi minnkað svo nú sé ástæða til að gleðjast og þakka sér fyrir góð störf. Já störf, þarna er lykilorðið! Störfum hefur nefnilega ekki fjölgað þeim hefur fækkað. Í  Reykjavík hefur störfum t.d. fækkað um 8400 síðan 2007. 

Ítrekað er búið að benda ríkisstjórninni á það að skoða verði fleiri tölur og ná stærra samhengi áður en farið er að gleðjast yfir árangrinum. Þá sést glöggt að atvinnuleysið hefur lítið breyst, vandamálinu hefur verið ýtt yfir á sveitarfélögin sem nú berjast í bökkum við að reka mannsæmandi velferðarþjónustu. Í atvinnuleysistölum Vinnumálastofnunar er ekki gert ráð fyrir atvinnulausum einstaklingum sem ekki eiga rétt til atvinnuleysisbóta en eru í engum öðrum skilningi neitt annað en atvinnulausir.  Fjöldi fólks hefur einnig leitað í nám eða ákveðið að leita sér að vinnu erlendis.


Fjárfesting í sögulegu lágmarki - sótt að atvinnugreinum.
Með aukinni verðmætasköpun verða til fleiri störf.  Fulltrúar og áhangendur ríkisstjórnarinnar hafa farið offari undanfarið í að draga fram sýndarárangur ríkisstjórnarinnar. „Landið rís“ og fleiri góðum slögurum hefur verið fleygt á loft. Því er haldið fram að hagvöxtur hafi aukist sem sanni góðan árangur. En hagvöxturinn er ekki fjárfestingadrifinn heldur er  á kostnað einkaneyslu í landinu sem er að mestu fjármögnuð með lánum, úff.  


Ríkisstjórnin sækir að atvinnugreinum með skattahækkunum og álögum sem verður til þess að störfum fækkar enn meira, ekki verða sömu skilyrði fyrir nauðsynlegar fjárfestingar. Hætta er á því að gæði minnki og samkeppisstaða versni. Um leið verður ríkiskassinn af sköttum og er verr í stakk búinn til að greiða niður skuldir.  Fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki. Fjárfestingar hafa ekki verið minni á Íslandi síðan í lok seinni heimstyrjaldarinnar.  


Á meðan sú ríkisstjórn sem nú situr fær frið til þess, er lífsgæðum okkar og velferð stórlega ógnað.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband