Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Heilbrigð félagshyggja

Félagshyggjan hefur snúist upp í andhverfu sína. Stjórn Steingríms og Jóhönnu var stofnuð undir því yfirskini að standa vörð um heimilin. Hið þveröfuga hefur hins vegar átt sér stað. Ríkisstjórnin lofaði heimilunum umbótum og vernd. Hvorugt hefur skilað sér. Greiðsluvandinn er gífurlegur en fáar lausnir líta dagsins ljós. Félagshyggja sem byggð er á sandi leiðir til sundrungar og reiði og snýst upp í andhverfu sína. Við getum ekki haldið áfram á þeirri braut.

Fyrirhyggja er einskis metin.
Eldra fólkið fær ekki að njóta sparnaðar, sem er ávöxtur ævitekna þess, þegar bætur almannatrygginga eru harkalega skornar niður á móti greiðslum úr lífeyrissjóði. Þeir, sem unnið hafa fyrir sér, greitt skatta og iðgjöld í lífeyrissjóði, standa undir kostnaði við þjónustu fyrir þá sem ekkert hafa lagt til hliðar. Með þessari framkomu er unga fólkinu send þau skilaboð, að það skipti engu máli að greiða í lífeyrissjóði né sýna fyrirhyggju. Allir sjá hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér.

Grundvöllur velferðar er verðmætasköpun. 
Skattastefna ríkisstjórarinnar skapar ekki verðmæti. Á meðan ríkisstjórninni hefur tekist að snúa félagshyggjunni upp í andhverfu sína hefur tækifærum verið sóað. Grundvöllur velferðar er verðmætasköpun. Hið undarlega hefur gerst á vakt núverandi ríkisstjórnar að henni hefur tekist að draga máttinn úr atvinnulífinu og efst á blaði virðist vera að kæfa grunnframleiðslu og koma í veg fyrir fjölgun starfa.

Stöndum vörð um velferðina.
Okkur ber að sjálfsögðu að hjálpa þeim sem minna mega sín og gæta þess að velferð þeirra verði ekki ógnað. Það gerum við með því að efla atvinnulífið og skapa verðmæti. Með því móti verða til fleiri störf, atvinnuleysi minnkar og ríkissjóður fær meiri tekjur til að halda úti heilbrigðu velferðarkerfi. Standa þarf vörð um velferðina með því að byggja hana á sterkum stoðum. Sjálfstæðismenn hafa ávallt gert það og munu gera það áfram. Verði andfélagshyggjan hins vegar áfram við völd er velferðarkerfið okkar í hættu.


Með bundið fyrir augu

Líklegt er að langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks skjóti rótum hér á landi ef ekki tekst að snúa vörn í sókn. Loforð um störf hafa verið svikin. Biðin eftir fleiri störfum er löng og safnast hefur upp gríðarlegur velferðarvandi. Háalvarlegt er hvernig ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hefur ákveðið að breiða yfir þennan vanda.

Að horfast ekki í augu við vandann er vont
Ríkisstjórnin hefur ítrekað haldið því fram að hér sé atvinnuleysi komið niður fyrir sársaukamörk. Því er haldið fram að allt sé að komast í eðlilegt horf enda sýni tölur að atvinnulausum fækki. Þegar nánar er að gáð er þetta alrangt því að eftir að atvinnulausir hverfa af skrá Vinnumálastofnunar fara þeir yfir á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og eru jafn atvinnulausir eftir sem áður. Þetta dregur ekki úr atvinnuleysi eins og ríkisstjórnin lætur í veðri vaka.

Að leyfa honum að magnast er verra
 Þrátt fyrir ábendingar frá sveitarstjórnarmönnum, forystumönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, aðilum vinnumarkaðarins og fleirum hafa stjórnvöld ekki brugðist við vandanum. Félagsþjónusta sveitarfélaga er ekki vinnumiðlun samkvæmt lögum. Vinnumiðlun er verkefni ríkisins. Þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda hefur fjölgað gríðarlega. Ungu fólki langmest. Bæði þeim sem hafa ekki lengur rétt til bóta og eins ungu fólki sem aldrei hefur átt rétt á þeim því það finnur ekki starf að loknu námi eða hefur aldrei fengið tækifæri til að reyna sig á vinnumarkaði. Ríkissstjórnin heldur áfram feluleiknum og bendir á að tölur Vinnumálastofnunar sýni og sanni að dregið hafi úr atvinnuleysi.

Að taka ekki nauðsynlegar ákvarðanir er verst
Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er ekki tekið á þessum vanda. Horft er framhjá honum. Þar er gert er ráð fyrir minni kostnaði ríkisins vegna atvinnuleysis en verið hefur. Hugmyndir um fjölgun starfa eru óraunhæfar. Í raun er líklegt að störfum fækki vegna aukinna skatta og álagna sem enn á að auka. En hvers er líka hægt að vænta af þeim sem ganga með bundið fyrir augu?

 

Grein birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 9. nóvember 2012 


Uppskerubrestur í jafnréttismálum

Ein af aðaláherslumálum ríkisstjórnarinnar eru jafnréttismál. Svo mikil áhersla var lögð á þau að ástæða þótti að færa þau undir forsætisráðuneytið svo vel skyldi nú gera. Ríkisstjórnin sem telur sig krossbera jafnréttis hefur keppst við að úttala sig um afrek sín. Staðreyndin er sú að það er algjör uppskerubrestur.

Norræna velferðarstjórnin hefur haft neikvæð áhrif á laun kvenna
Kynbundinn launamunur hefur vaxið í tíð ríkisstjórnarinnar. Hann hafði áður minnkað frá árinu 2000 en hefur nú aukist á ný og mest innan stjórnsýslunnar. Fram hefur komið að opinberir starfsmenn eru langþreyttir á aðgerðarleysi stjórnvalda og vilja aðgerðir en ekki fleiri fundi.

 

Ríkisstjórnin hefur ekki getað framfylgt sínum eigin jafnréttislögum
Samþykkt voru jafnréttislög. Því miður hafa tveir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar gerst sekir um að hafa brotið þessi lög. Í ályktun Femínistafélags Íslands sagði meðal annars »Úrskurðurinn hlýtur að teljast áfall fyrir ríkisstjórn sem hefur talað djarflega og af metnaði í jafnréttismálum.

 

Jafnrétti í fæðingarorlofi í stórhættu
Sjálfstæðisflokkurinn leiddi í gegn gífurlega miklar jafnréttisumbætur, og jafnvel þær mestu sem orðið hafa hérlendis á síðustu áratugum með fæðingarorlofslögunum sem samþykkt voru 2000. Lögin voru sett á til að koma til móts við breytt viðhorf til hlutverka og verkaskiptingar kvenna og karla. Markmið var að konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis til jafns við karla og forsenda þess er að foreldrar skipti með sér umönnun barna sinna. Megintilgangur var einnig að færa feðrum rétt á meiri samvistum við börn sín. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur fæðingarorlofið verið skert fjórum sinnum. Körlum sem taka fæðingarorlof fækkar. Forgangsröðun þessa verkefnis er ekki meiri en svo.

 

Sjálfstæðisflokkurinn mun sinna jafnréttismálum komist hann að til þess. Hins vegar mun hann ekki nota þau sem skrautfjaðrir eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert.


Aukinn kraft í nýsköpun

Drifkraftur nýsköpunar á sér frekar stað hjá einkaaðilum en hinu opinbera. Hins vegar ætti nýsköpun að eiga jafn vel heima í opinberum rekstri. Hugtakið nýsköpun vísar til breytinga. Hægt er að tala um nýsköpun þegar verulegar breytingar verða á afurðum, aðferðum eða skipulagi. Markmiðin með nýsköpun geta verið ólík. Þau geta fjallað um nýjungar og viðbætur en eins sparnað í rekstri og skilvirkni í þjónustu.

Nýsköpun er háð því að stjórnendur og starfsmenn hafi frelsi og getu til að prófa nýjar hugmyndir og leiðir. Starfsumhverfið, viðhorf og menning innan fyrirtækjanna geta þar skipt sköpum. Nauðsynlegt er að rekstrarumhverfi opinberra stofnana gefi rými til nýsköpunar.

Ekki er nægilegt rými fyrir nýsköpun innan opinberrar þjónustu. Þetta á sérstaklega við um velferðar- og menntageirann. Hugsjónafólk sem vill gera tilraunir til að reka öðruvísi þjónustu fer gjarnan út í einkarekstur enda hentar ríkisramminn illa eða alls ekki. Gott dæmi er Hjallastefnan. Þar hefur hugsjónafólk haldið út fyrir rammann til að reka þjónustu á annan hátt en hefðbundið er. Mörg dæmi eru um að einkaaðilar, sjálfseignarstofnanir eða samtök taki að sér að sjá um þjónustu á hendi ríkisins.

Nefna má Sóltún sem Öldungur hf. rekur og sinnir þjónustu við aldraða, en þar hefur mikið frumkvöðlastarf verið unnið við að innleiða nýja nálgun í þjónustu. Heilbrigðisþjónustan í Salahverfi í Kópavogi hefur einnig verið rekin af einkaaðila í nokkur ár með sóma og fyrirtækið Karitas sinnir sérhæfðri heimaþjónustu fyrir langveika með því markmiði að efla slíka þjónustu og styrkja.

Ákveðin stífni hefur einkennt viðbrögð við þessari þróun. Nú er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að bæði notendur og stjórnendur kalla á breytingar. Hagsmunasamtök fatlaðra eru á einu máli um að efla beri vald notenda. Notendur eigi að stjórna hvernig þjónusta er veitt í stað þess að opinberir starfsmenn hafi þau völd í hendi sér. Aldraðir hafa látið í sér heyra og telja á sér brotið af því að þeir hafa ekki tækifæri til að velja sjálfir um það hvernig, hvenær og hver veitir þeim þjónustu. Athyglisvert var einnig að sjá í fréttum um daginn að heimilislæknar telja að starfsumhverfið hér á landi sé ekki nógu aðlaðandi, of stíft og henti þeim illa. Þeir komi flestir frá Norðurlöndunum, þar sem þeir hafi mun meiri tækifæri til að hafa áhrif á eigið starfsumhverfi. Því sé hætta á flótta úr greininni. Allt í kringum okkur spretta upp vísbendingar um að það kerfi sem við nú rekum verði að taka meiri breytingum.

Aukinn sveigjanleiki í opinberum rekstri er nauðsynlegur og aðkallandi. Vald þarf að færast til stjórnenda og notenda og stífir rammar þurfa að heyra sögunni til. Höldum nýsköpuninni ekki í skefjum. Gefum henni aukinn kraft.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband