Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

Viðhorf eru mikils virði - hvernig væri að vinna með þau í stað þess að reyna að fela þau.

Mikilvægt er að þjónustan í Reykjavík sé eins góð og kostur er og jafn mikilvægt er að viðhorf til hennar séu góð. Viðhorf geta haft áhrif á það hvar fólk sækir um vinnu eða starfar, hvar það býr, hvar það ákveður að framkvæma hluti, hvar það ákveður að búa. Ef að það er einlæg trú meirihlutans í Reykjavík að þjónustan sé mjög góð, þá virðist eitthvað mjög ábótavant í kynningarmálum. Og þá ætti að sjálfsögðu að fara í að skoða það í stað þess að gera lítið úr niðurstöðum og losa sig við óþægilegar upplýsingar.

 

Ég skrifaði stúf um þetta mál sjá hér: 

Kæru borgarbúar, ykkar viðhorf eru einskis virði!

 


mbl.is Mælir ímynd frekar en þjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæru borgarbúar, ykkar viðhorf eru einskis virði!

Talið er að viðhorf fólks geti spáð fyrir um viðbrögð. Einhvern veginn svona er sambandið: Því sterkara sem viðhorf til einhvers hlutar eða málefnis er því líklegra er að viðkomandi sýni meiri viðbrögð við hlutnum eða málefninu.

Viðhorf eru hins vegar þannig að ekki er hægt að gefa sér á einfaldan hátt hverju þau stýra. Ræður til dæmis slæmt viðhorf til þjónustu það að ég noti hana ekki? Tja, kannski ekki alltaf. En ef val er um að velja þjónustu þar sem viðhorf til annarrar er gott en til hinnar slæmt, þá er mjög liklegt að sú fyrri verði fyrir valinu séu þessar þjónustur að öðru leyti frekar jafnar. Víst er að um mjög tilfinningalegt mat er að ræða og það byggir ekki endilega á þekkingu um fyrirbærið sem metið er. Mjög margt er jafnframt hægt að gera til að snúa viðhorfum fólks, þarna geta til dæmis kynning og fræðsla verið alveg gríðarlega mikilvægir þættir.   

Viðhorf til þjónustu í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum hafa verið mæld í nokkur ár. Niðurstöðurnar hafa verið erfiðar fyrir Reykjavík. Viðhorfið mælist á nærri öllum víddum mjög lágt miðað við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir að Reykjavík reki miklu víðfemari þjónustu, með miklu meiri kostnaði virðist viðhorf til þjónustunnar í Reykjavík ítrekað skrapa botninn.

Meirihlutinn í Reykjavík hefur lítið viljað gera með viðhorf borgarbúa í Reykjavík. Alls kyns afsakanir og skýringar hafa verið gefnar, allt frá því að þetta skipti engu máli yfir í að borgarbúar séu of kröfuharðir.

Nú vill meirihlutinn fara að nota sínar eigin aðferðir og mæla sína eigin hópa eða notendur þjónustunnar í Reykjavík. Það er kannski skiljanlegt því í þeim könnunum fær þjónustan mun betri einkunn. Ýmislegt er hins vegar varhugavert við þá afstöðu. Meðal annars að þeir sem njóta þjónustu eru líklega ánægðari en þeir sem ekki njóta hennar, þeir eru örugglega síður til í að segja sjálfum þjónustuaðilanum frá óánægju sinni þar sem þeir eru honum háðir um þjónustuna, ekki er leitað sérstaklega að þeim sem ekki hafa fengið þjónustu og þannig má lækka niður í áhrifum hópsins sem ekkert fær eða er óánægður. Svo auðvitað að því sem athyglisverðast er, eða samanburðinum við önnur sveitarfélög, er þá sleppt. :-(  

Svona að þessu öllu saman sögðu er það eindregin skoðun mín að meirihlutinn í Reykjavík ætti að byrja að vinna að sínum málum í stað þess að stinga þeim undir teppið.

Mikilvægt er að þjónustan í Reykjavík sé eins góð og kostur er og jafn mikilvægt er að viðhorf til hennar séu góð. Viðhorf geta haft áhrif á það hvar fólk sækir um vinnu eða starfar, hvar það býr, hvar það ákveður að framkvæma hluti, hvar það ákveður að búa. Ef að það er einlæg trú meirihlutans í Reykjavík að þjónustan sé mjög góð, þá virðist eitthvað mjög ábótavant í kynningarmálum. Og þá ætti að sjálfsögðu að fara í að skoða það í stað þess að gera lítið úr niðurstöðum og losa sig við óþægilegar upplýsingar.


Eru brotalamir í málefnum aldraðra?

Í gildi er stefna um málefni eldri borgara í Reykjavík frá því árið 2013 sem gildir út árið 1017. Hér má lesa stefnuna ef einhver vill. Þessari stefnu fylgir svo aðgerðaráætlun þar sem talið er upp hvað skuli gera til að dæma megi svo að stefnunni hafi verið fylgt. Auðvitað er gott að hafa góða stefnu - en það skiptir nákvæmlega engu máli ef ekkert er gert til að fylgja henni.

Á síðasta fundi velferðarráðs var fjallað um málefni eldri borgara. Ljóst var í byrjun árs 2015 að mjög vantaði upp á að stefnunni hefði verið fylgt ekki lá hins vegar hvað hafði gerst frá því í janúar 2015 og þar til í dag ári síðar. Í ljósi þess ákváðum við að leggja fram nokkrar tillögur og bíðum nú eftir svörum.  

1) Einn hluti stefnunnar er að gera reglubundnar kannanir á högum og viðhorfum aldraðra. Gerir fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 ráð fyrir því fjármagni?

2) Mikilvægt þykir að efla upplýsingaflæði til aldraðra og efla ráðgjafarþjónustu. Lagðar voru fram tillögur þess efnis í ágúst 2014 og boðað var í byrjun árs 2015 að teknar yrðu ákvarðanir til að bæta úr þessum málum. Ekkert hefur til þeirra frést. Spurt er, voru einhverjar teknar, og hvaða aðgerðir á að ráðast í fyrir árið 2016.

3) Eitt atriði stefnunnar var að borgin myndi setja upp rafrænt ábendingakerfi fyrir þjónustu heimahjúkrunar. Í janúar 2015 hafði þessi vinna ekki hafist. Er gert ráð fyrir henni á árinu 2016?

4) Mikið er lagt upp úr nærþjónustu og samráði. Í janúar 2015 kom fram að mjög mismunandi er hvernig samráði er háttað og eins og dæmin sýna virðist samráð oft mjög takmarkað. Verkferli lá ekki fyrir í janúar 2015. Liggur þetta verkferli fyrir nú eða er gert ráð fyrir að það verði unnið 2016.

5) Um búsetumöguleika er fjallað í stefnunni meðal annars um þjónustuíbúðir og hvernig skuli vinna að því að brúa bilið milli búsetu á eigin heimili og búsetu á hjúkrunarheimili. Árið 2013 var stofnaður hópur til að skoða og kortleggja þarfir þessa hóps og undirbúa næstu skref. Í janúar 2015 lá ekkert fyrir um framkvæmdir en boðað var að vinna við tillögur hæfist í mars 2015. Var farið í þá vinnu, liggur eitthvað fyrir eða er gert ráð fyrir fjármagni til á árinu 2016.

6) Gríðarleg áhersla er lögð á að gera öldruðum kleift að búa sem lengst heima. Einn liður þess er að auðvelda fólki að gera breytingar á heimilum sínum, t.d. hvað varðar aðgengi. Ekkert lá fyrir í þessum efnum í byrjun árs 2015. Gerðist eitthvað á árinu 2015 eða er gert ráð fyrir að eitthvað gerist árið 2016?

7) Áhersla var lögð á að efla stuðning við aðstandendur. Gert var ráð fyrir að fundur yrði haldinn í byrjun síðasta árs sem átti að leiða til þess að aðgerðir og tillögur að framkvæmd yrðu til. Gerðist það? Hvar er sú vinna og verður henni haldið áfram árið 2016.

 

 


"Ha! ég að skera niður grunnþjónustu?"

Mikið ferlega er illa komið í Reykjavík, í annars góðri tíð. Auðvitað setja kjarasamningar strik í reikninginn en það er aðeins hluti vandans. Hinn hlutinn er arfaslök forgangsröðun og það að taka það ekki alvarlega að skatttekjur dugi ekki fyrir því sem það kostar að reka þjónustu fyrir íbúa. 

Nú hafa borgarstjóri og fylgdarsveinar hans reynt að mótmæla því að þeir hafi nokkuð með þessi mál að gera, allt séu þetta utanaðkomandi þættir sem ekkert hafi verið hægt að eiga við. Því miður eru það hin mestu ósannindi. Ítrekað hefur hópnum verið bent á að þjónustuhlutinn sé rekinn í tapi, ítrekað hefur honum verið bent á að Reykjavíkurborg hafi "bólgnað" nokkuð ískyggilega og hratt án þess að hægt sé að skýra það til hlítar. Ítrekað hefur honum verið bent á að verið sé að sóa fé almennings með slakri stefnu og lítilli eftirfylgni. Ítrekað hefur meirihlutanum verið bent á að þetta leiði til skuldasöfnunar sem á endanum muni leiða til skerðingar á grunnþjónustu og það í nokkur ár.

Eitt megineinkenni meirihlutans í borginni er að útfæra lítið af því sem þau hafa í hyggju. Þannig var um 1,8 milljarða niðurskurður útskýrður í fjárhagsáætlun með skýringunum - óútfærð hagræðing. Svo þegar útskýringarnar komu löngu síðar þá fjölluðu þær um að "leitað yrði lausna", "starfsfólki yrði falið" og fleira í þeim dúr.  Með því móti þurfa aðrir að taka erfiðu ákvarðanirnar. Það er gott að vera hvítþveginn og koma alltaf að fjöllum þegar talið berst að skerðingu grunnþjónustu.

Tilefni þessa greinarstúfs er einmitt það að nú berast alvarlegar athugasemdir og áhyggjur frá skólastjórnendum, kennurum og foreldrum til borgarfulltrúa. Sá hópur talar alveg skýrt - niðurskurðurinn eins og honum hefur verið stillt upp er skerðing á grunnþjónustu. 

Sýningum á leikritinu - Ha! ég að skera niður grunnþjónustu? má alveg fara að linna.

 

 


Ennþá óútfært

Engan veginn er hægt að fullyrða um hagræðingu sem er að stórum hluta ennþá óútfærð. Ef menn lesa í gegnum skjölin má sjá það. Mikið er talað um endurskipulagningu, samþættingu, betri nýtingu og að starfsfólki verði falið að vinna að lausnum. Sem sagt - þetta er enn allt saman frekar óskýrt og óútfært. 

Aðeins meira um það hér.

 


mbl.is Hagræða um 1.780 milljónir í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já það væri of óþægilegt

Í dag er kominn febrúar.  Ennþá leggur borgarstjóri fram óútfærðar tillögur inn í fjárhagsáætlunarvinnu þessa árs, sem átti að leggja fram fyrir nokkrum mánuðum síðan. Nú liggja sem sagt fyrir óútfærðar tillögur að óútfærðu tillögunum í fjárhagsáætlun sem voru ekki nema um tæpar tvöþúsund milljónir.

Á meðan verið var að skrifa niður óútfærðu tillögurnar í annað sinn sat meirihlutinn ekki aðgerðarlaus í fjármálastjórninni. Ákveðið að fjárfesta í heyrnartólum fyrir eina og hálfa milljón, eitthvað sem má gera fyrir mun minna fé. Jú reyndar var ákveðið að spara líka, skera niður matarþjónustu aldraðra og ákveðið að sleppa því að fá upplýsingar um þjónustuna í borginni,í árlegri þjónustukönnun sveitarfélaga, sem undanfarin ár hefur fengið falleinkunn hjá íbúum, enda óþægilegt að fá svona óþægilegar upplýsingar þegar álagið er svo mikið við að reyna að átta sig á hvernig á að útfæra óútfærðu tillögurnar áður en árið er á enda. já það væri allt of óþægilegt! Betra að bíða bara eftir að einhverjir fari að hjóla Grensásveginn.

Ómálefnalegt? Uuuuu..nei.

 

 

 

 


Gegnsæið í vinnslu hjá nefnd

Í fjögur ár hefur tillaga Sjálfstæðismanna í Reykjavík um að vinna að auknu gegnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar verið í "vinnslu" hjá meirihlutanum í borginni. Það er því ekki skrítið að við undrumst um hvernig hlutunum er stýrt á bak við tjöldin í borgarstjórn.

Eitt helsta áhugamál meirihlutans þegar kemur að gagnsæis- og lýðræðismálum hefur verið að vísa málunum í "nefnd" eða í  Pírataráðið svokallaða. Lýðræðis- og gegnsæisráð...nei Stjórnkerfis og lýðræðisráð heitir það víst,  hefur sem sagt tekið við ýmsum málum og sett í vinnslu þar sem klukkan virðist ganga afturábak og lítið er að frétta eins og sagt er. Aukið gegnsæi er hins vegar eins og alþjóð veit besta leiðin til að veita aðhald og eftirlit. 

Nú þegar fréttist af því að fjármálaráðuneytið hafi unnið að sömu málum á nokkrum vikum og ætli að opna fyrir fyrstu upplýsingarnar á þessu ári er heilmikil ástæða til að spyrja hvert tíminn fór í "nefndinni". Er stjórnun ábótavant eða er helsta ástæðan lítill áhugi meirihlutans á því að auka aðgengi íbúa að tómum sjóðum og "skemmtilegum" reikningum?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband