Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

7000 á mánuði - 84 þúsund á ári - 150 þúsund að viðbættum gjaldskrárhækkunum

7000 á mánuði - 84 þúsund á ári - 150 þúsund að viðbættum gjaldskrárhækkunum

Meginstefið í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 er að íbúar borga brúsan en kerfinu er hlíft!


mbl.is 7000 krónur á fjögurra manna fjölskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin útgjöld barnafjölskyldna um 100 til 150 þúsund

Ekki hægt að finna neitt skapandi eða öðruvísi í fjárhagsáætlun Besta flokks og Samfylkingar - stenst engar væntingar, íbúar gjalda og kerfinu er hlíft!

Fréttatilkynning fór til fjölmiðla frá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík dag hér eru glefsur úr henni:

Hækkanir á öllum sköttum og gjöldum í Reykjavík

Barnafjölskyldur þurfa að taka á sig 100 til 150 þúsund á ári í útgjaldaaukningu 

Besti flokkurinn og Samfylkingin lögðu fram sína fyrstu fjárhagsáætlun á borgarstjórnarfundi í dag.

Því miður fer meirihlutinn þá leið að senda reikninginn á borgarbúa í stað þess að fara nýjar leiðir eins og Besti flokkurinn lagði áherslu á í kosningabaráttu sinni.

Allir skattar sem hægt er að hækka eru hækkaðir, öll gjöld sem hægt er að hækka eru hækkuð og engar nýjar leiðir eru farnar. Stuðst er við gamaldags aðferðir kerfisins á kostnað fólksins. Augljóst er að meirihlutann skortir yfirsýn yfir verkefnið, meginlínur eru óskýrar og framtíðarsýn og forgangsröðun er ábótavant.

Tilviljanakenndar gjaldskrárhækkanir og vannýtt tækifæri til samráðs við hagræðingu bera þessu glöggt merki. Er það þá besta leiðin að auka álögur, leita ekki samráðs við starfsmenn og borgarbúa og að skera lítið sem ekkert niður í miðlægri stjórnsýslu?

Skattahækkanirnar eru sögulega háar og sú lækkun sem fasteignaeigendur í borginni hefðu átt að njóta vegna lækkunar fasteignamats er þurrkuð út með hækkunum á fasteigna- og lóðasköttum.

Skattahækkanir eru eftirfarandi: · Útsvarsprósentan úr 13,03% í 13,20%, · Fasteignaskattar úr 0,214% í 0,240% · Lóðarleigaúr 0,08% í 0,2% Auk þess eru gjaldskrárhækkanir að jafnaði 5-40% á meðan hagræðing í miðlægri stjórnsýslu er eingöngu 4,5 %.

Kerfinu er því hlíft en borgarbúar látnir gjalda fyrir það.

Ekki má gleyma hækkunum Orkuveitunnar í haust þar sem reikningur meðalfjölskyldu í Reykjavík hækkaði um 30.000 kr. á ári.

Systkinaafsláttur á leikskólum er lækkaður úr 100% í 75% sem hefur veruleg áhrif á barnafjölskyldur og frístundagjöld eru hækkuð um 20% svo eitthvað sé nefnt.

Fyrir barnafjölskyldu í Reykjavík geta því aukin útgjöld 2011 numið allt frá 100 til 150 þúsund kr. á ári * Svo miklar hækkanir munu leiða til þess að enn meira þrengir að hjá fjölskyldufólki og einkaneysla og atvinnulíf í borginni dregst saman.

Leiðin sem farin er - er afleit og sú leið sem flest lönd í kringum okkur vilja ekki fara sökum þess að hún hægir enn frekar á umsvifum í samfélaginu og lengir kreppuna. Þau lönd sem eru að ná árangri hafa einbeitt sér að því að auka tekjur og minnka álögur á íbúa til þess að koma hagkerfinu af stað.

Ákvörðun hefur verið tekin í Reykjavík um að fara leið ríkisstjórnarinnar og reyna að skattleggja sig út úr kreppunni. Það er margsannað að við aukna skattheimtu breytir fólk neyslumynstri og lifnaðarháttum til þess að laga sig að breyttu umhverfi. Sú fjárhæð, sem áætlað er að ná með því að fara þá leið, næst því aldrei.

Borgarsjóður skilaði afgangi síðastliðin tvö ár og lausafjárstaða er gríðarlega sterkTölurnar tala sínu máli um góðan árangur fyrrverandi meirihluta síðastliðin tvö ár, borgarsjóður stendur betur en nokkru sinni fyrr og skilaði afgangi síðastliðin tvö ár og rekstur samstæðunnar mun skila um 20 milljörðum í hagnað 2010.

Lausafjárstaða er í sögulegu hámarki eða 17,1 milljarður sem er 145.000 kr. á hvern íbúa í Reykjavík á meðan hún er 75.000 kr. á íbúa í Garðabæ og 49.000 kr. í Kópavogi. Reykvíkingar hljóta að spyrja hvers vegna skattar á þá hækki á sama tíma. Það hefði verið hægt að hagræða töluvert meira í borgarkerfinu með því að halda áfram að nota þær nýstárlegu aðferðir sem innleiddar voru eftir hrun og fengu alþjóðlega viðurkenningu.

Hagræðingarkrafan nú er 5 milljarðar og einungis þriðjungur þess er vegna samdráttar í tekjum. Í stað þess að skera niður í kerfinu er farið í töluvert af nýjum verkefnum en 2/3 af hagræðingunni og niðurskurðinum er vegna kostnaðarauka.

Betra hefði verið að halda áfram með skýra forgangsröðun í þágu borgarbúa, draga enn frekar saman í miðlægri stjórnsýslu, fresta nýjum útgjaldaliðum og nýta reynslu og þekkingu starfsfólk og íbúa - tillögur þeirra spöruðu á síðasta ári umtalsvert meira fé en skattahækkanir meirihlutans nú. Slík forgangsröðun hefði verið fyrir fólkið en ekki kerfið.

 

*miðað er við 2-3 börn, fasteignamat 2010 íbúðar 24 milljónir kr. á húsnæði og laun á mánuði samtals 700 þúsund kr. Skattar og gjöld eru: Leikskólagjöld, skólamáltíð, sorphirða, fasteignaskattar, lóðagjöld, útsvar, gjödl frá Orkuvietunni, frístund, síðdegishressing, sund, fjölskyldu - og húsdýragarður, menningarkort og sumarnámskeið. 


Hækkun fjárhagsaðstoðar eða virkni

Fréttir af hækkun fjárhagsaðstoðar fara nú um alla fjölmiðla. Við fulltrúar sjálfstæðisflokksins í velferðarráði lögðum fram breytingartillögu um að þessi tillaga yrði endurskoðuð með tilliti til þess að setja fjármagn í virkniúrræði. Sú tillaga var felld.

Athugasemdirnar sem við höfum við hækkanir Samfylkingar og Besta flokksins eru að þær verða til þess að þeir sem koma til með að nýta fjárhagsaðstoð komast að raun um að fjárhagslega er enginn ávinningur um að fara út á vinnumarkaðinn. Því er hætta á því að þeir sem annars myndu sækja út á vinnumarkaðinn geri það ekki og dragi þannig úr getu velferðarráðs við þá sem mesta hjálpina þurfa.

Meginmarkmið fjárhagsaðstoðar er að koma þeim til aðstoðar sem eru í neyð, hafa orðið fyrir áföllum, eiga við félagslega erfiðleika að stríða eða hafa búið við þannig aðstæður að þeim hafa ekki gefist tækifæri til jafns við aðra til sjálfshjálpar. Um 75% þeirra sem fá fjárhagsaðstoð eru yngri en 40 ára og 30% eru yngri en 25 ára sem gefur vísbendingar um að virkni og hvatning eru mikilvæg.

Fréttir af fjárhagsaðstoðinni fóru til fjölmiðla á meðan að á fundi velferðarráðs stóð sem á ekki að gerast, með tilliti til þess birti ég hér með okkar sjónarmið þó að fundi velferðarráðs sé ekki lokið. 

Okkar bókun vegna hækkkunar fjárhagsaðstoðar er þessi:

Samanburðartöflur um ráðstöfunartekjur birtast hér á morgun.


Fyrir liggur tillaga Samfylkingar og Besta flokksins um að verja um 350 milljónum króna á næsta ári í hækkun fjárhagsaðstoðar.  Það er alltaf gott ef hægt er að hækka ráðstöfunartekjur fólks og sérstaklega þeirra sem minna mega sín en það er umhugsunarvert þegar ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð eru orðnar hærri en þeirra sem hafa atvinnuleysisbætur, og jafnháar ráðstöfunartekjum þeirra sem vinna fyrir lægstu launum á vinnumarkaðnum því hafa ber í huga að fjárhagsaðstoð er neyðaraðstoð og flokkast sem styrkur en ekki laun. 
 
Fjárhagslegur hvati til að sækja út á vinnumarkaðinn horfinn
Eins og sést á töflum sem bera saman ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð, atvinnuleysisbótum og á vinnumarkaði er fjárhagslegur hvati til að sækja út á vinnumarkaðinn að þurkast út með tillögum Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Við hækkun fjárhagsaðstoðar um 19% er sá munur sem er á ráðstöfunartekjum launamanns sem þiggur tæpar 200 þúsund krónur í mánaðarlaun og þess sem er á fjárhagsaðstoðinni í raun orðinn lítill sem enginn,  sé tekið tillit til þess að hinn vinnandi þarf að greiða kostnað við að koma sér til og frá vinnu auk annars kostnaðar sem fylgir því að vera vinnandi. Hvatinn til að vinna í svokölluðum láglaunastörfum fer því þverrandi þar sem fólk hefur það ekkert betra fjárhagslega en ef það hættir að vinna og fer á fjárhagsaðstoð.


Þegar of viðtekið er að erfitt sé að finna vinnu verður innri virkni fólks minni en venjulega og því þarf meiri hjálp og hvatningu til að komast út á vinnumarkaðinn
Í því ástandi sem nú ríkir, þar sem almennt er talið erfitt að finna sér vinnu og nokkuð vonleysi ríkir almennt, er alls ekki heppilegt að jafna fjárhagsaðstoð við stöðu þeirra sem lægstu launin hafa því það mun valda því að fólki á fjárhagsaðstoð fjölgar og hægjast mun á því að fólk sæki út á vinnumarkaðinn. 
 
Virkniúrræði til að efla sjálfshjálp er raunveruleg aðstoð við að brjótast út úr fátækt
Það er mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að betur væri með féð farið með því að nýta það í svokölluð virkniúrræði og önnur atvinnuskapandi úrræði.  Hækkun grunnfjárhæða muni ekki ein og sér bæta úr vandanum. Mun meiri hjálp þarf að koma til að leysa úr raunverulegum vanda fólksins og sporna gegn fátækt til lengri tíma. Leggja ætti áherslu á virkniúrræði sem miða að því að efla og skerpa á getu og kunnáttu þeirra sem nú er á fjárhagsaðstoð og hjálpa þeim að komast út í atvinnulífið. Verði ekkert gert er hætta á því að enn fleiri festist í viðjum fátæktar til lengri tíma og tillaga meirihlutans vinni því í raun ekki að framsettum markmiðum eða að sporna gegn fátækt. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband