Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Reykvíkingar fá reikninginn

Ég var að koma af borgarstjórnarfundi þar sem farið var í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun. Í raun er með ólíkindum hversu slappt frumvarpið er. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendum eftirfarandi frá okkur eftir fundinn.  
 
Reykvíkingar fá reikninginn 
Meðalfjölskylda í Reykjavík mun á næsta ári greiða rúmlega 440 þúsund krónum meira í skatta og gjöld til Reykjavíkurborgar en hún gerði í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. 
 
Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur þannig reynst fjölskyldum í Reykjavík dýrkeyptur. Allt kjörtímabilið hefur borgarstjórnarmeirihlutinn seilst í vasa borgarbúa í stað þess að hagræða í rekstri eins og fjölskyldur og fyrirtæki hafa orðið að gera. Frá því að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar tók við árið 2010 hafa skatttekjur hækkað verulega eða um 26%. Þær voru tæpir 50 milljarðar árið 2010 en eru áætlaðar 63 milljarðar á næsta ári samkvæmt áætluninni. 
 
Flókið og þungt borgarkerfi eftir fjölmargar skipulagsbreytingar er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Lítið hefur verið hagrætt, þvert á móti eykst kostnaður víða. Meirihlutinn hefur fundið upp á mörgum nýjum verkefnum og hlaðið utan á kerfið þannig að það vex ár frá ári og kostnaður eykst.
 
Skuldir rúmlega tvöfaldast 
Skuldabyrði borgarsjóðs hefur aukist mikið undir stjórn núverandi meirihluta eða um 115%. Frá árinu 2010 hafa hreinar skuldir borgarsjóðs vegna A-hluta hækkað um 26 milljarða króna eða úr 23 í 49 milljarða. Aukningin nemur 6,5 milljörðum króna á ári frá árinu 2010, sem jafngildir því að allt kjörtímabilið hafi skuldir aukist um 750 þúsund kr. á klukkustund. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir fjármálastjórn meirihlutans í borgarstjórn. 
 
Fjárhagsáætlanir meirihlutans standast ekki 
Reykjavíkurborg hefur verið rekin með tapi undir stjórn Samfylkingar og Besta flokksins þrátt fyrir að í fjárhagsáætlunum meirihlutans hafi verið lagt upp með háleit markmið um rekstrarafgang. Á síðasta kjörtímabili skilaði rekstur Reykjavíkurborgar hins vegar afgangi undir forystu Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífi. 
 
Til að breiða yfir lélega fjármálastjórn, leitast borgarstjórnarmeirihlutinn við að fegra niðurstöður rekstrarins með tilfærslum á rekstrareiningum. Til dæmis ætlar meirihlutinn nú að færa eignir og rekstur Bílastæðasjóðs úr B-hluta yfir í A-hluta, að því er virðist eingöngu í því skyni að fegra stöðu borgarsjóðs og gera samanburð á fjármálum borgarinnar á milli ára erfiðari en ella. 
 

 


Er arðsemi af hinu illa?

Það vekur furðu hve vinstra fólki er illa við einkarekstur í almannaþjónustu. Því er beinlínis haldið fram, að einkarekstur í grunnþjónustu sé hættulegur, því að hann þurfi að skila eðlilegum tekjuafgangi. Að mati þessa fólks hlýtur arðsemiskrafa í slíkum rekstri að skila sér í verri þjónustu.
 
Nýlega hneykslaðist formaður Vinstri grænna á því að enn þrjóskuðust menn við að fjölga þjónustusamningum við einkaaðila. Eða eins og hún orðar það: » ... að færa æ stærri hluta af sameigninni - skóla, heilbrigðisstofnanir, veitukerfi - undir lögmál markaðarins með þjónustusamningum við einkaaðila sem eiga að græða á öllu en bera takmarkaða ábyrgð«.
 
Ástæða er til að staldra við slíka sleggjudóma. Gefið er í skyn að þeir, sem reka sjálfstæð fyrirtæki í opinberri þjónustu, hafi það eitt að markmiði að græða með því að kreista sem mest út úr rekstrinum á kostnað þeirra, sem njóta eiga þjónustunnar. Þessi ádeila formannsins er ekki síst sérkennileg í ljósi þess að í stjórnartíð Vinstri grænna var ekki dregið úr einkarekstri til dæmis í heilbrigðiskerfinu enda eru einkareknar einingar oft mjög hagkvæmar og skila betri árangri en þær, sem reknar eru af opinberum aðilum.
 
Það er athyglisvert að tala um »takmarkaða ábyrgð«þegar flestum er ljóst, að það er í raun aðstöðumunurinn milli hins opinbera og sjálfstæðra aðila sem veldur því að viðbrögð sjálfstæðra aðila við áföllum geta aldrei orðið eins víðtæk og viðbrögð hins opinbera gagnvart eigin einingum eins og staðan er í dag. Ástæðan er einmitt sú að vinstri menn streitast gegn því að veita sjálfstæðum aðilum nægan stuðning í þessu samhengi. Ef jafnt væri gefið mundi miðlægur stuðningur ná jafnt til allra þeirra sem reka grunnþjónustu hvort sem um opinbera eða sjálfstæða aðila er að ræða. Á slíkt vilja vinstri menn helst ekki minnast. Miðlægur stuðningur hins opinbera við eigin einingar ásamt fjármagni því sem veitt er í ýmsar stofnframkvæmdir er nefnilega langt umfram það sem sjálfstæðir aðilar njóta. Arðsemiskrafa hvetur rekstraraðila og starfsfólk til að finna leiðir til að sinna viðskiptavinum sem allra best með minni tilkostnaði. Aðalatriðið er að einkafyrirtæki, sem tekur að sér grunnþjónustu, verður að standa við þjónustusamninginn. Sjálfstæður rekstur hefur reynst vel hvað grunnþjónustu varðar og sýnt hefur verið fram á það að skólar reknir með ákveðinni arðsemiskröfu geta skilað betri árangri gagnvart þeim sem eiga í erfiðleikum með nám heldur en skólar sem ekki hafa arðsemiskröfu. Þetta kom m.a. fram í rannsókn, sem Harvard University gerði árið 2009.
 
Þá hefur ávísanakerfið, sú hugmynd að fé fylgi þörf, notið víðtæks stuðnings þar sem það hefur verið innleitt. Í Svíþjóð voru vinstri menn mjög á móti slíkri innleiðingu fyrir 20 árum en í dag nýtur þessi aðferð yfirgnæfandi fylgis fólks burtséð frá því hvort það stendur til hægri eða vinstri í stjórnmálum. Þannig hafa margir vinstri menn annars staðar á Norðurlöndum áttað sig á kostum einkarekstrar á meðan vinstri menn á Íslandi halda áfram að berja höfðinu við steininn.
 
Arðsemiskrafa er ekki af hinu illa. Hún stuðlar að jákvæðum árangri. Ef félag skilar arði þá er líklegra að hægt sé að hækka laun starfsmanna og líklegra að félagið greiði meira til samfélagsins. Einnig er líklegra að félagið geti sótt fé til fjárfesta sem aftur mun auka getu þess til að sinna viðskiptavinum sínum enn betur. Látum ekki kreddur vinstri manna stöðva okkur í að ná enn betri árangri öllum til góðs.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband