Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Eru kjarasamningar að leggja stein í götu þekkingarsamfélagsins?

Í dag er sveitarstjórnarþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ég var rétt í þessu að hlusta á Claus Mogensen sem kom hingað til að fjalla um stöðu  sveitarfélaganna í Danmörku. Hann byrjaði á að fjalla um danska skólakerfið og umræðan var svo ótrúlega kunnugleg. Skemmst frá að segja telur hann að ekki sé hægt að reka skólakerfið áfram eins og það er nú. Árangurinn sé ekki nógu góður en 15% danskra barna uppfyullir ekki skilyrði um læsi og 17% ekki í stærðfræði.

Skólarnir henta vel meðalbarni en þróunin er sú að fleiri og fleiri foreldrar kjósa nú nám í einkaskólum enda gera þeir meiri kröfur um árangur. Nú standi sveitarfélögin í Danmörku bráðum frammi fyrir því að vera að nálgast það að skólakerfið sé að vera markaðsdrifið.

Kennsla er dýr og kennarar kenni aðeins 39% af vinnutímanum. Misræmi sé milli þess hversu mikið er eytt í skólana og árangurs barnanna, en fjármagn virðist ekki vera eina lausn vandans. Það sé algjörlega nauðsynlegt að auka árangur og skilvirkni.

Þær lausnir sem hann kynnti voru á þessa leið.  Í fyrsta lagi sé lausnin sé lengri skóladagur, meiri kennsla í Dönsku og stræðfræði, hefðbundin kennsla er leyst af hólmi með leik, meiri æfingum í náminu og að gera heimavinnu. Setja þurfi fá og skýr markmið um hvaða árangri nemendur eigi að ná og vinna hart að þeim. Um leið þurfi meira frelsi fyrir kennara um hvernig á að haga kennslunni, meiri samkeppni milli kennara og skóla.

Í öðru lagi sé lausnin að endurskoða kjarasamningar kennara hjá sveitarfélögum sem nú takmarka mjög hvernig haga má kennslu í skólunum. Kröfur þurfi að gera um að skólastjórnendur fái meira frelsi og vinnutími kennara ætti ekki að fara eftir miðlægum kjarasamningum. Í þekkingarsamélag i er þetta fyrirkomulag engan veginn nóg og alls ekki nógu sveigjanlegt.

Ríkisstjórnin og sveitarfélögin þurfi nú að snúa bökum saman til að breyta þessu kerfi - nú séu allir að kenna kennurunum um að skemma kerfið sem sé ekki málið en hins vegar séu hindranir í að breyta þessu þar sem kjarasamningarnir haldi öllu í gíslingu. Nú þurfi betri nýtingu á tíma kennara, ríkið þarf að styrkja skólana betur, draga þarf úr regluverkinu og innleiða meiri sveiganleika í kennsluna.

Þessi umræða er nákvæmlega sú sama og þarf að fara í gang hér og af alvöru. Ríkisstjórnin hefur frestað upptöku laga sem einmitt fólu í sér að breytingar í þessa átt væri hægt að gera í skólakerfinu. Kjarasamningar mega ekki stýra skólastarfinu og takmarka til dæmis kennslutíma kennara og skólana þarf að reka til að ná árangri fyrir nemendur og þekkingarsamfélagið. 

Fyrir nokkrum vikum skrifaði Hermundur Sigmundsson prófessor í Þrándheimi um skólastarf og benti á að við ættum að geta gert miklu betur hér á landi. En hann og samstarfsfólks hans hafa vakið mikla athygli og eru í samstarfi við vísindamenn í Harvard og Cambridge.

Hugmyndir Hermundar og hans félaga felast í því að lagt er til að skóladagurinn hefjist á líkamlegri hreyfingu í klukkustund. Að því búnu taki við þrjár kennslustundir, hver um sig 40 mínútna löng með hléi á milli. Þar sé kenndur lestur og stærðfræði. Eftir hádegi taki síðan við kennsla í öðrum námsgreinum þar sem nemendum er skipt í hópa og aðstoð við heimanám. Með því að einbeita okkur að grunnþáttunum fyrir hádegi sé hægt að bæta lestrarkunnáttu og draga þannig úr þörf fyrir.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var mikið um þetta fjallað og stefnan um meira frelsi í skólum og kennslu og áherslan á að kjarasamningar stýri ekki skólastarfi kemur þar skýrt fram. Ljóst  er því að umræðan í Danmörku virðist snúast nákvæmlega um þetta enda er framtíð þekkingarsamfélaga byggð á því að vel takist að sinna börnunum.

 

 


Þjónusta fyrir utangarðsfólk

Í þessum stutta greinarbút er ég ekki að halda neinu fram bara velta vöngum. 

Þjónusta við utangarðsfólk í Reykjavík er nú til umræðu í starfshópi sem velferðarráð í Reykjavík setti á fót. Reykjavík er eina sveitarfélagið sem sinnir þessari þjónustu og ríkið hefur lítið skipt sér af þrátt fyrir að af stórum hluta sé um heilbrigðisvanda að ræða. Í Reykjavík eru allir pólitískir fulltrúar sammála um að þessi þjónusta sé mikilvæg og að henni verði að sinna en ennþá ræðum við um leiðir.

Hópurinn áðurnefndi hefur farið yfir stöðu mála, hitt fjölda fólks sem sinnir þjónustunni og þeim sem vel þekkja til þessara mála og ræddar hafa verið ýmsar nálganir. Mjög margt hefur komið til umræðu og á enn eftir að koma til umræðu. 

Hugtakið "skaðaminnkandi" er nokkuð inni í umræðunni og er athyglisvert. Vísað er til þess að bjóða fólki sem hegðar sér á áhættusaman hátt, t.d. utangarðsmenn eða fólk í mikilli neyslu,  upp á aðstæður sem hægja á skaðseminni eða gefa fólki færi á að búa við aðstæður sem geta dregið úr skaða. Ekki er gerð krafa á að fólk hætti neyslunni heldur að það fái samastað eða athvarf þrátt fyrir hana.

Þetta er nokkuð ný nálgun hér á landi en Reykjavíkurborg hefur rekið slík úrræði í nokkur ár. Engu að síður er hefðbundnara að vinna að því að fá þá sem eru í vanda til að fara í meðferð en samþykkja ekki neyslu eins og skaðaminnkandi nálgunin gerir. Skaðaminnkandi nálgunin getur líka vel stangast á við lög þar sem fólk er með undir höndum ólögleg fíkniefni og fleira slíkt sem hafa ekki samrýmist opinberri þjónustu nema að því leyti að gera slík efni upptæk. Engu að síður hefur þetta úrræði verið tekið upp og er rekið af opinberum aðilum til dæmis í Hollandi við ágætan árangur.

Mörgum finnst að um leið og neysla er samþykkt hafi átt sér stað ákveðin uppgjöf. Á meðan aðrir halda því fram að þegar neysla er samþykkt opnist tækifæri fyrir fíkla til að upplifa sjálfan sig á nýjan hátt sem geti leitt til þess að breytingar verði til hins betra.

Það sem allir vita er að okkur gengur alls ekki alveg nógu vel í þessari baráttu, best væri að geta tekið stórlega á forvörnum til að reyna að fækka í þeim hópi sem þarf að ganga í gegnum þetta. Ég held að nauðsynlegt sé að horft sé saman á grunnskóla og velferðarmálin því með öflugri samvinnu má hugsanlega ná betri árangri í skólanum, minnka brottfall, bjóða upp á fjölbreyttara nám og sveigjanlegri skóla. Þannig á endanum er vonandi hægt að fækka þeim sem þurfa á sérstækum úrræðum að halda.

Bara pælingar úr borginni :-) 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband