Bloggfærslur mánaðarins, maí 2017

Gjaldheimta á nagladekk?

Tillaga um heimild sveitarfélaga til gjaldtöku vegna notkunar nagladekkja var til umræðu a fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins teljum að mjög mikilvægt sé að reyna að takmarka notkun nagladekkja en ef að eigi að fara í gjaldtöku þurfi að ríkja um það verulega mikil sátt. Slíkri sátt megi vinna að með íbúakosningum.

Því lögðum við fram breytingartillögu um að heimild til gjaldtöku yrði aðeins virkjuð ef helmingur samþykkti slíkt í ibúakosningum sem gætu farið fram rafrænt. Slík kosning yrði einnig til þess að auka fræðslu um skaðsemi nagladekkja í leiðinni og jafnvel þó að ekki náist að samþykkja gjaldheimtu muni umræðan um skaðsemina eflaust fá ennþá fleiri til að hætta notkun nagladekkja. Málið er mikið umhverfismál en hins vegar eru margir til sem telja öryggi sínu ógnað nema keyra um á nagladekkjum og auðvitað eru aðstæður fólks ærið misjafnar. En i þessu tilfelli er kannski mikilvægast að tryggja það að samráði við íbúa sé sinnt og tekið alvarlega.

Lögð var fram tillaga um að á eftir 60. gr. laganna í VIII. kafla umferðarlaga (Um ökutæki) bætist við ný grein 60. gr. a, er orðast svo: Gjaldtaka af hjólbörðum með nöglum Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald af notkun hjólbarða með nöglum á nánar tilteknum svæðum. Sveitarstjórn skal ákveða gjaldtöku að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið. Með gjaldtöku er átt við gjald sem eigandi eða ökumaður ökutækis skal greiða fyrir heimild til að aka á hjólbörðum með nöglum þann tíma sem notkun þeirra er leyfð.

Þetta vildi meirihlutinn samþykkja en við vildum breytingar á tillögunni, þannig að við hana bættist aftan við fyrirliggjandi tillögu þetta hér:

"Heimild um gjaldtöku vegna nagladekkja verði aldrei samþykkt nema að undangenginni íbúakosningu í sveitarfélaginu þar sem að minnsta kosti helmingur íbúa styðji gjaldtöku. Slík kosning gæti verið rafræn."

Með því viljum við taka undir mikilvægi fræðsluátaks í því skyni að takmarka notkun nagladekkja. Notkun nagladekkja er talin gríðarlega neikvæð fyrir umhverfið, heilsu og lífsskilyrði og allar tilraunir til að minnka notkun þeirra eru mikilvægar. Notkun nagladekkja hefur tengst umferðaröryggi frekar í hugum margra en umhverfismálum og það um langa hríð. Slíka viðhorfsbreytingu þarf því að undirbúa í miklu samráði við íbúa. Eins þarf að skoða hvort íbúar geti treyst á mokstur og vetrarþjónustu í sveitarfélaginu og að hvaða marki. Því telja fulltrúar Sjálfstæðislokkisins að við fyrirliggjandi tillögu þurfi að bæta við ákvæði um að heimild um gjaldtöku verði aldrei samþykkt nema að helmingur íbúa hafi samþykkt það í undangenginni íbúakosningu. Slík kosning geti að sjálfsögðu verið rafræn. Íbúakosning af því tagi myndi einnig leiða af sér gríðarlega sterkt kynningarátak um skaðsemi nagladekkja og skilað miklum árangri.

Málinu var svo frestað. 

 


Hið óskiljanlega

Óskiljanlegt er að meirihlutinn í Reykjavík hafi ekki lagt meira á sig í þágu þeirra sem nú upplifa algjörar hremmingar á húsnæðismarkaði. Húsnæðisskortur veldur því að fólk býr við óviðunandi aðstæður og himinhá húsnæðisgjöld. Sinnuleysi meirihlutans stuðlar að fátækt, efnaminna fólk er ekki lengur velkomið og borgin stendur ekki lengur undir nafni sem fjölmenningarborg.

Nýjar áætlanir til að kaupa sér tíma?
Í stað þess að sinna því grunnhlutverki að úthluta fleiri lóðum fór tími meirihlutans í að sýna almenningi fagurlega gerðar hönnunartillögur. Löngu var þó ljóst að þessar byggingar yrðu ekki tilbúnar fyrr en á eftir áætlaðan tíma og myndu lítið nýtast þeim sem mest þurfa á að halda.

Þegar meirihlutinn var svo farinn að þreytast á að hlaupa undan sannleikanum á enn einn kynningarfundinn var ákveðið að kynna nýja uppbyggingaráætlun. Þannig telur meirihlutinn að hann geti breitt yfir vangetu sína til að uppfylla stóra kosningaloforðið um þúsundir íbúða sem aðeins náði svo langt að komast á áætlun. Til þess að takast á við vandamálið, sem var orðið vandræðalega augljóst, varð úr að meirihlutinn skellti fram nýrri áætlun með enn fleiri íbúðum í því skyni að kaupa meiri tíma til að halda sama leiknum áfram. Algjörlega óskiljanlegt.

Við einhverjar aðstæður gæti þetta þótt sniðugt kynningarbragð. En alvarleiki málsins kemur svo sannarlega í veg fyrir það nú. Þegar leiga á litlu herbergi er komin yfir hundrað þúsund á mánuði er fokið í flest skjól fyrir fólk á leigumarkaði, vitað er að fjölskyldur búa í óásættanlegu húsnæði en geta sig hvergi hreyft þar sem ekkert annað er í boði. Fjöldi fólks er á hrakhólum og býr inn á fjölskyldu og vinum. Í slíkum aðstæðum er staða þeirra tekjulægstu, einstæðinga og innflytjenda sérstaklega erfið en við það situr því lausnir eru engar. Þetta kemur ekki aðeins fram í fjölmiðlum heldur er einnig saga félagsráðgjafa og fólks sem vinnur í félagsþjónustunni enda erfitt að vera ráðgjafi í slíkri stöðu.

Reykjavíkurhúsin - nýjung eða töf á uppbyggingu?
Á meðan boðar meirihlutinn lausnina “Reykjavíkurhúsin”. Meirihlutinn telur Reykjavíkurhúsin lykilþátt í stefnu borgarinnar um aukna fjölbreytni á húsnæðismarkaði. Þarna séu fjölbýlishús þar sem áhersla verður lögð á að leigja fjölbreyttum hópi einstaklinga og fjölskyldna með ólíkan bakgrunn. Lausnin hefur ekki enn hefur verið tekin í notkun þó að talað hafi verið um hana í mörg ár. Meirihlutinn leggur mikla áherslu á þessa lausn í máli sínu því mætti halda að þarna væri um einhverja stórkostlega nýjung að ræða sem boðað gæti betri tíð. En þegar betur er að gáð sést að þarna er lítið annað á ferðinni en töf á uppbyggingu. Hugmyndin virðist því miður ekki ganga út á annað en það að blanda fólki með ólíkan félagslegan bakgrunn saman í fjölbýlishús, og vera nógu lengi að því. Öllu á þó að tjalda til við að gera þetta sem glæsilegast og valin var líklega ein dýrasta lóð Reykjavíkurborgar fyrir verkefnið. En fyrir andvirði slíkrar lóðar hefði mátt nýta sölutekjurnar til uppbyggingar í þágu mun fleiri.

Meirihlutinn ákvað einnig að hugmyndinni að Reykjavíkurhúsunum skyldi fylgja skilgreining á nýjum félagslegum hópi til að mæta kröfum um það sem kallast “félagsleg blöndun” á fagmáli. Nýji hópurinn kallast “efnaminni”. Hinir efnaminni eru ekki þeir sem eru verst staddir en engu að síður hópur sem ræður illa við að ná endum saman þegar húsnæðiskostnaður hefur hækkað svo gríðarlega vegna framboðsskorts og hárra leigu- og húsnæðisgjalda. Staða sem meirihlutinn í Reykjavík hefur leynt og ljóst unnið að með stefnu sinni. Á meðan er verst staddi hópurinn þó sniðgenginn.

Það óskiljanlegasta af því óskiljanlega
Eins og oft hefur komið fram eru þúsund fjölskyldur á biðlistum eftir félagslegum íbúðum í Reykjavík. Uppbyggingarþörf hefur ekki verið sinnt. Meirihlutinn hefur sniðgengið þar sína helstu skjólstæðinga og eitt af mikilvægustu hlutverkum sínum.

Meirihlutinn í Reykjavík er samsettur af alls kyns vinstri flokkum og á stefnu margra er erfitt að átta sig. Aðferðirnar við að ná fram stefnumörkuninni eru líka algjörlega óskiljanlegar. Einn flokkur telur sig þó vera lengst til vinstri og sá hefur beinlínis á stefnuskrá sinni að styðja við uppbyggingu húsnæðis á félagslegum forsendum. Og þá kemur að því óskiljanlegasta af því óskiljanlega en áhyggjur vinstri grænna af húsnæðisvandanum virðast hafa gufað upp.

Þess má minnast að Vinstri græn stóðu vaktina ásamt Sjálfstæðismönnum og gagnrýndu meirihlutann í Reykjavík á síðasta kjörtímabili vegna of lítillar fjölgunnar félagslegra íbúða. Því miður situr sá flokkur nú á þessu kjörtímabili með hendur í skauti sér í faðmi kynningarstjórans eins og aðrir meðlimir meirihlutans.

Við þær aðstæður sem upp eru komnar hjá fjölda fjölskyldna í borginni hljótum við að fara fram á að þeir sem með völdin fara í Reykjavík hætti að einblína á að sérsníða lausnir út frá því hversu glæsilegar þær verði á kynningarfundi og einbeiti sér að því að hlutverki að aðstoða fólk í neyð.

Grein birtist í Morgunblaðinu 8. maí 2017


Ungt fólk og lýðræði

Á dögunum var haldin ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði og samantekt og ályktun af þessum fundi barst meðal annars til mín. Áhugavert er að lesa hvað er þeim efst í huga og ég deili því hér með ykkur.

Borgarstjórn situr fundi með ungmennaráðsfulltrúum í Reykjavík einu sinni á ári. Fróðlegt hefur verið að heyra þeirra tillögur. Reyndar hefur staðan nú oft verið sú að sömu tillögurnar eru lagðar fram ár eftir ár því þrátt fyrir að þeim sé kastað inn í borgarkerfið virðast þær ekki ná að berast upp að strönd á réttum stað á því eina ári sem líður á milli fundanna.

Fram kemur margt áhugavert í ályktun af ráðstefnunni. Til dæmis að á síðustu 10 árum fái nú fleira ungt fólk tækifæri til að móta samfélagið og koma að ákvarðanatöku á öllum stigum þess með þátttöku í ungmennaráðum. Fram kemur gagnrýni á samráðsskort við ungmennin sjálf þegar breytingar voru innleiddar á menntakerfinu og að mikið álag sé á nemendum.

Mikil áhersla er lögð á geðheilbrigði og fræðslu. Ályktað er um að boðið verði upp á sálfræðiþjónustu í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins. Einnig að bæta þurfi heilbrigðiskerfið, sérstaklega úti á landi.

Ungmennin upplifa þekkingarleysi gagnvart fjármálum, réttindum og skyldum á atvinnumarkaði og vilja aukna fræðslu í grunn- og framahldsskólum um þau málefni.

Mikið er lagt upp úr því að raddir ungmenna heyrist sem víðast og krefjast þau aukins aðgengis að nefndum innan sveitarfélaga. 

Sjálfsagt mál ætti að vera að koma til móts við ungmennin.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband