Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Menning er mannrækt

Í dag var samþykkt í borgarstjórn endurskoðuð menningarstefna Reykjavíkurborgar til ársins 2012. Verkefnið hefur verið gífurlega viðamikið og meira en ár er síðan framkvæmd hófst en árið 2007 fór verkefnið inn á starfsáætlun menningar – og ferðamálaráðs fyrir árið 2008.

Framkvæmd verkefnisins einkenndist af miklu samráði og eindreginn vilji var til samráðs við almenning.  Við endurskoðun stefnunnar var leitað samráðs við ýmsa aðila. Haldnir voru 2 stærri samráðsfundir snemma vors 2008, þar sem fjölbreyttum hópi fólks var boðið að taka þátt í hugarflugsvinnu með framtíðarsýn menningarlífs Reykjavíkur í huga og í framhaldi af því störfuðu nokkrir hópar að hugmyndavinnunni.

Þegar drög að markmiðum og leiðum stefnunnar höfðu verið mótuð í lok nóvember 2008, voru þau send til ýmissa hagsmunasamtaka og menningarstofnana í Reykjavík, hverfisráða, íbúasamtaka, ásamt annarra sviða Reykjavíkurborgar og kallað eftir athugasemdum. Einnig voru drögin birt á vef Reykjavíkurborgar og almenningur hvattur til að tjá sig um drögin þar.

En víkjum þá að innihaldi stefnunnar. Hvað hefur breyst frá fyrri stefnumörkun? Nefna má helstu atriðin, í fyrsta lagi er búið að gera stefnuna mun aðgengilegri, hún er meira útskýrandi en áður var sem er verulega til bóta þar sem fyrri stefnumörkum var nokkuð knöpp.

Í öðru lagi er mikil viðurkenning falin í stefnunni, sem lýtur að því að viðurkennt er að menningarlífið í borginni sé mikilvægur hluti efnahags- og atvinnulífs borgarinnar og bæta þurfi úr sýn á hagræn áhrif menningar á samfélagið. Menning er það afl sem eykur lífsgæði. Í menningunni felast auðævi þjóðarinnar ekki síður en í öðrum atvinnugreinum.

Í þriðja lagi er stefnan að ákveðnu leiti “afskiptasöm” og fjallar um aukið samráð í borginni um hvernig hægt er að vinna að verkefnum í samráði og samstarfi  milli sviða, ráða, stofnana og annarra aðila.

Yfirskrift menningarstefnunnar er Menning er mannrækt og leiðarljós hennar er; Reykjavík eflist sem höfuðborg menningar í landinu. Sjálfsmynd borgarinnar byggi á menningararfi, frjórri hugsun og frumkvæði. Menningarlífið einkennist af fjölbreytni og virkri þátttöku íbúa og gesta.

Stefnan skiptist í 8 eftirfarandi kafla:

  1. Auðlind sem byggt er á til framtíðar
  2. Börn og menningaruppeldi
  3. Menningarstofnanir Reykjavíkurborgar
  4. Listir
  5. Samkennd og jafnræði
  6. Umhverfi og saga
  7. Alþjóðleg menningarborg
  8. Þáttur menningar í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar   

Hvet ykkur til að kynna ykkur menningarstefnuna skjalið er hér. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband