Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Tekur Reykjavík forystu í rafbílavæðingu?

Ég held að við höfum alla burði til þess og nú hefur umhverfis- og samgönguráð tekið utan um verkefnið. Starfshópurinn mun líka skoða tækifæri í öðrum vistvænum orkugjöfum. Hér er frétt um það:

"Reykjavík stefnir að því að verða forystuborg á heimsvísu í rafbílavæðingu. Umhverfis- og samgönguráð stofnaði í dag starfshóp sem á að finna leiðir til að ná þessu markmiði eins fljótt og auðið er. Kjöraðstæður eru taldar vera fyrir hendi í Reykjavík til að gera borgarbúum fært að reka rafbíla í borginni á hagkvæman hátt.

Samgöngur er helsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda í borginni og hefur mikil áhrif á loftgæði. Kosturinn við raforkuna sem knýr bílana er að hún er innlend, endurnýjanleg, ódýr og einnig mun draga verulega úr loftmengun og losun gróðurhúslofttegunda. Aðstæður þurfa vera með því móti að auðvelt verði að hlaða bílana hvort sem er heima fyrir, í vinnunni eða annars staðar í borginni. Starfshópurinn mun meðal annars gera áætlun um rafbílavæðingu og kanna aðstæður til að innleiða hleðslukerfi í borginni.

Lagt er til í tillögunni að starfshópurinn verði skipaður fulltrúnum meiri- og minnihluta ráðsins. sérfræðingar af Umhverfis- og samgöngusviði, háskólastofnun og fulltrúa Orkuveita Reykjavíkur munu eiga aðild að starfshópnum. Jafnframt verður samgönguyfirvöldum boðin þátttaka. Hópurinn á að skila skýrslu ásamt tillögum í mars 2010. "


Mér finnst þetta flott

Mér finnst þetta flott, skemmtilegt og nauðsynlegt.

Á vef borgarinnar er eftirfarandi frétt.

"Reykjavíkurborg leitar nú leiða til að nýta fjármuni borgarinnar sem best og draga saman í rekstrinum án þess að skerða grunnþjónustu, hækka gjaldskrár og fækka störfum.

Í fyrra var leitað til starfsfólks og óskað eftir hagræðingarhugmyndum fyrir  fjárhagsáætlun 2009. Starfsfólk lét ekki sitt eftir liggja og fram komu um 1500 tillögur til hagræðingar, af þeim komu strax til framkvæmda um 300 þeirra og enn er verið að vinna úr fjölda hugmynda og verkefna. Reykjavíkurborg hefur nú verið tilnefnd til verðlauna fyrir nýsköpun hjá Samtökum Evrópuborga (Eurocities) fyrir þetta verkefni og verða úrslitin kunngjörð í lok nóvember.

Í ljósi þessa frábæra árangurs leitum við ekki aðeins til starfsfólks heldur borgarbúa allra og óskum eftir tillögum um leiðir til hagræðingar. Allar tillögur stórar sem smáar eru vel þegnar og rétt er að minna á að margt smátt gerir eitt stórt."

Smelltu svo hér til að senda inn hugmynd.

 

 


Ferskar og góðar hugmyndir í Reykjavík

Í ferðaþjónustunni eru mikil sóknarfæri fyrir Reykjavíkurborg. Fyrr á þessu ári var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur að skoða þau. Menningar- og ferðamálaráði var falið að skipa starfshóp sem hefði það verkefni ásamt því að skoða hvernig efla mætti kynningu og markaðssetningu á Reykjavík sem áfangastað ferðamanna. Þá skyldi einnig skoðað með hvaða hætti Reykjavíkurborg getur hvatt til nýsköpunar og eflt vöruþróun í ferðaþjónustu í Reykjavík. 

Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur, Höfuðborgarstofu, Nýsköpunarmiðstöð, Útflutningsráði og SAF (Samtökum ferðaþjónustu). Niðurstaða starfshópsins sem skipaður var í kjölfarið var að halda opið hugmyndatorg og bjóða þar öllum sem vildu að leggja til hugmyndir um hvar sóknarfæri leyndust. Gætt var að því að hafa aðgengi gott og tekið var við hugmyndum bæði munnlega, rafrænt og bréflega, allt frá bréfsnifsum að ítarlegri skýrslum. Bárust um 70 hugmyndir til hópsins.

Sjö verkefni hlutu styrki, en styrkupphæðin var um 7 m.kr.  Í starfshópnum fóru fram góðar umræður. Meðal annars sú að mjög mikilvægt sé að draga fram þá kosti og auðlindir sem borgin hefur upp á að bjóða nú þegar. Einnig að að auðvelda og auka tækifærin fyrir aðila í ferðaþjónustunni með góðu framboði af alls kyns afþreyingu fyrir ferðamenn. Val verkefnanna er byggt á þessum gildum.

Sjö verkefni hlutu styrk:
1) Vatnavinir hlutu styrki til að þróa áfram hugmyndir um  fjölbreyttari baðmenningu í Reykjavík. Vatnavinir vilja leggja áherslu á náttúruupplifun innan borgarmarkana og þannig auka fjölbreytnina og styrkja ímynd Reykjavíkur ennfrekar sem „Heilsuborg”.
2) Þórdís Ágústsdóttir hlaut styrk til að vinna að Ljósmyndasýningu í Reykjavík sem haldin verður í fyrsta sinn árið 2011 Verkefnið felst í því að skipuleggja ljósmyndahátíð í Reykjavík og gera borgina að suðupotti sköpunnar og umræðu um ljósmyndun.
3) Fyrirtækið Náttúran.is hlaut styrk til að hanna og þróa grænt Reykjavíkurvefkort sem
dregur grænu kostina í borginni sérstaklega fram, s.s. hjólastíga, náttúrugöngur, vinnustofur listamanna, þráðlaust net, kennileiti tengd vatni, náttúruleiksvæði ofl.
4) Inga Jessen hlaut styrk til að hanna og viðhalda vefsíðunni Freecitytravel.com – vefsíða þar sem ferðamenn geta nálgast fjölbreyttar upplýsingar um ókeypis afþreyingu í Reykjavík á einum stað.
5) Sigurður Hall hlaut styrk til að koma upp og viðhalda íslenskri sælkera matarsíðu byggðri á og tengdri Food and Fun hátíðinni. Markmiðið er að kynna Reykjavík sem heimsklassa matarborg. Vefsíðan verður tengd öllum þeim matreiðslumeisturum sem tekið hafa þátt í Food and Fun og íslensku veitingastöðunum.
6) Valgeir Guðjónsson hlaut styrk til að setja á svið sýningu fyrir erlenda ferðamenn sem ber heitið: Iceland in reverse: A musical journey from present Iceland to the past. Þetta er sýning með leik og söng um sögu Íslands.
7) Hönnunarmiðstöð Íslands hlaut styrk til að efna til samkeppni um Reykjavíkurminjagrip. Þess má geta að samkeppnin er hafin og þeir sem hafa áhuga eru beðnir að kynna sér málið á vefsíðu Hönnunarmiðstöðvarinnar. Keppnin er öllum opin og felst í því að hanna nýjan og einkennandi minjagrip fyrir Reykjavík. Verðlaunatillagan skal endurspegla vörumerki Reykjavíkur sem ferðamannaborgar, Reykjavík - Pure Energy. Vörumerkið vísar til þeirrar hreinu orku sem sem Reykjavík býr yfir í fleiri en einni merkingu: í náttúrunni, vatninu, menningunni og sköpunarkraftinum.

Það er afar ánægjulegt að Reykjavíkurborg skyldi stíga þetta skref til eflingar nýsköpunnar í ferðaþjónustu í borginn og ég vona að Reykjavíkurborg geti haldið áfram að styðja og hvetja fyrirtæki og einstaklinga með ferskar og góðar hugmyndir.




Glæsilegt að fá Þórey

Óska Þórey til hamingju með nýja starfið. Hún mun eflaust sinna því vel eins og öðru sem hún tekur sér fyrir hendur. Veit að hennar er sárt saknað úr hönnunargeiranum þar sem hún hefur látið kveða að sér síðastliðið ár. Það er fengur fyrir sjálfstæðisflokkinn að fá hana til starfa.
mbl.is Ráðin kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavík hlýtur viðurkenningu fyrir nýsköpun í fjárhagsáætlunarvinnu

Frábær árangur Hönnu Birnu borgarstjóra og Óskars Bergsonar formanns borgarráðs kristallast í þessum verðlaunum. Þetta er eitthvað annað en það sem við sjáum ríkisstjórnina gera þrátt fyrir að þeim hafi ítrekað verið bent á að vinna á sömu leið.

Hér er fréttatilkynningin:

Ný vinnubrögð við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar tilnefnd til nýsköpunarverðlauna Eurocities samtakanna

Reykjavíkurborg hefur verið tilnefnd til verðlauna Eurocities fyrir nýbreytni við fjárhagsáætlunarvinnu Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009. Verðlaun samtakanna eru í flokknum nýsköpun (Innovation) og er Reykjavíkurborg ein þriggja borga sem tilnefndar eru í þessum flokki.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri segir ánægjulegt fyrir Reykjavíkurborg að vera tilnefnd til verðlauna fyrir ný vinnubrögð. „Þessi tilnefning Eurocites er mikil viðurkenning á þeim nýju vinnubrögðum sem Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir og veitir okkur hvatningu til áframhaldandi góðra verka.“

Tilnefnt verkefni Reykjavíkurborgar var hluti af viðamikilli hagræðingarvinnu vegna fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 þar sem leitað var til starfsfólks Reykjavíkurborgar um nýjar lausnir. Skipulagðar voru vinnustofur með starfsfólki þar sem staða borgarinnar var kynnt ítarlega og hvatt til nýrra lausna undir kjörorðinu; sparnaður án niðurskurðar. Alls tóku hátt í 3000 starfsmenn þátt í þessari vinnu og fram komu um 1500 tillögur til hagræðingar. Af þeim komu strax til framkvæmda um 300 þeirra og enn er verið að vinna úr fjölda hugmynda og verkefna.

Nýmæli er í íslenskri stjórnsýslu að leitað sé eftir svo víðtæku liðsinni starfsfólks vegna fjárhagsáætlunar og þeim sé um leið veitt tækifæri til að leggja sitt af mörkum við að gera borgarreksturinn sem hagkvæmastan. Tillögurnar sem bárust voru stórar og smáar en eiga það allar sameiginlegt að endurspegla þann mikla metnað sem starfsfólk hafði fyrir verkefninu. Leiðarljós starfsfólks við gerð hagræðingartillagnanna var að þær væru í samræmi við aðgerðaráætlun, sem samþykkt var einróma í borgarstjórn, og kæmu ekki niður á grunnþjónustu borgarinnar, störfum eða gjaldskrám.

Eurocities samtökin eru samtök Evrópuborga og á ári hverju eru veitt verðlaun sem nefnast Áskoranir í borgum – sjálfbærar lausnir (Urban challenges – sustainable solutions). Verðlaunin skiptast niður í þrjá flokka og eru þrjár borgir tilnefndar í hverjum. 32 verkefni frá 25 borgum fengu umfjöllun dómnefndar, sem tilnefndi níu borgir þar á meðal Reykjavíkurborg. Í flokki nýsköpunar eru auk Reykjavíkurborgar tilnefndar borgirnar Malaga á Spáni og Utrecht í Hollandi. Verðlaunin verða afhent á aðalfundi Eurocities – samtakanna í Stokkhólmi þann 26. nóvember nk.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband