Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Ofbeldi í borgarstjórn

Rætt var um að hefja sérstakt átak gegn ofbeldi í borgarstjórn í gær. Tillaga Vinsti grænna um átakið var samþykkt samhljóða en við töldum rétt að taka málið lengra og lögðum fram viðbótartillögu um að nauðsynlegt sé að beina sjónum sérstaklega að minnihlutahópum í slíku átaki. Algjörlega nauðsynlegt er að horfa sérstaklega til  minnihlutahópa. Rannsóknir sýni til dæmis þær sláandi niðurstöður að þriðjungur fatlaðra kvenna verða fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. 
Þá sé það einnig staðreynd að fatlaðar konur búi við ofbeldi yfir lengri tíma en aðrir hópar. Mjög mikilvægt er að skoða hvernig hægt er að hafa virkara eftirlit með þeim sem veikast standa því þeir leiti sér ekki hjálpar af sjálfsdáðum. Og ljóst er að nauðsynlegt er að nálgast lausnir fyrir þessa hópa  með öðrum hætti en almennt gerist. 

Stefna Sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum felst í að auka valfrelsi, og að fólki gefist kostur á því að hafa frelsi til að velja hvernig þjónusta er veitt og af hverjum. Slíkt er nauðsynlegt því þannig fær notandi þjónustunnar stjórnunina og valdið til að stýra hvernig fram er komið við hann. Inn á opinberum heimilum og stofnunum er hætta á að sjálfræði íbúa sé minna og að hugmyndafræðin um sjálfstætt líf víki fyrir reglum sem starfsfólk og stofnanir setja. Þeir sem búa á heimilum og stofnunum hafa litla möguleika á að velja starfsfólk til að sinna sér enda lýtur það fólk ekki þeirra stjórn. Ef þeir sem þurfa þjónustuna eru hinir sömu og sem ráða fólkið mun þjónustan snúast meira um þarfir þess sem þarfnast hennar en ekki þarfir stofnunarinnar sem réði starfsmanninn. Mjög mikilvægt er að hraða og leggja áherslu á breytingar á velferðarkerfinu í átt til sjálfstæðis.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband