Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Velferðartorg á þvælingi

Velferðarþjónusta getur verið mjög sértæk, til dæmis ráðgjöf sérfræðinga eða sértæk meðferð, en einnig almenn s.s. námskeið og fræðsla. Til mikils er að vinna að upplýsa fólk um þá velferðarþjónustu sem stendur til boða. Slíkt getur stytt verulega þann tíma sem líður frá því að tiltekið vandamál kemur upp og að fjölskyldur fái aðstoð og ráðgjöf um hvernig má bregðast við. Einnig má með þessum hætti aðstoða fólk við að ná enn frekar markmiðum um bætta líðan og hvetja það til að fjárfesta í velferð.

Þrautalending á biðlistum
Því miður er staðan oft sú að fólk leitar ekki aðstoðar fyrr en í öngstræti er komið. Mjög einkennandi er ráðaleysi um hvert skuli leita og lítil þekking á því hvaða aðstoð sé í boði. Oft verður því þrautalending á biðlista hjá opinberri stofnun, sem eru í herkví langra biðraða. Þá er einnig algengt að fólk telji sig ekki í hópi þeirra sem þurfa meðferð enda erfitt að gera sér grein fyrir því hvenær ráð væri að leita hjálpar.

Því miður hefur þróunin verið sú að biðlistar myndast eftir þjónustu eða greiningu. Biðin getur verið löng og á meðan tapast dýrmætur tími og aðstæður og líðan versna. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að biðlistarnir myndist og koma fólki fyrr í skilning um hvenær tímabært er að leita sér aðstoðar. Til þess verður að leiðbeina fólki mun betur hvar hægt er að fá ráðgjöf. Þannig má sporna við þeirri þróun að langir biðlistar myndist hjá umsetnum opinberum stofnunum enda geta fleiri aðilar veitt nauðsynlega aðstoð. Þeir sem sinna slíkri þjónustu auka fjölbreytni þjónustunnar og veita notendum meira val. Því fleiri sem nálgast fyrr þá þjónustu sem hentar þeim mun betra og skilvirkara verður velferðarkerfið.

Tillaga um Velferðartorg
Í því skyni að bæta úr núverandi ástandi lögðum við sjálfstæðismenn í borgarstjórn fram tillögu um að bjóða út verkefni sem kalla mætti »Velferðartorg«. Markmiðið er að kynna fyrir íbúum hvaða velferðarþjónusta býðst í borginni. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg stuðli að því að allir geti fundið sér þjónustu við hæfi óháð rekstraraðila. Lagt var til að haldin yrði hugmyndasamkeppni um hvernig hægt væri að byggja upp sjálfbært og rafrænt markaðstorg til þess að ná þessu markmiði. Hvernig tengjum við þjónustuframboð við þjónustuþörf, hvernig auðveldum við fólki að nálgast þjónustuaðila, hvernig auðveldum við fólki að velja þjónustuaðila og hvernig aðstoðum við fólk við að leita sér hjálpar á sem skemmstum tíma? Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur sá ekki ástæðu til að vinna að þessu verkefni og felldi tillöguna með þeim orðum að unnið væri að aukinni upplýsingagjöf og miðlun á velferðarsviði. Hvergi sér þess stað að unnið sé að þessu verkefni á velferðarsviði og ekki sést það í starfsáætlun sviðsins.

Óttinn við einkaaðila
Eflaust hefur það eitthvað haft að segja að í tillögunni var sérstaklega nefnt að mikilvægt væri að auglýsa þjónustu einkaaðila eins og opinberra aðila. Það er svo sem ekkert nýtt að fulltrúar sumra flokka í borgarstjórn megi ekki heyra á það minnst að einkaaðilar komi nálægt velferðarmálum. Oft á tíðum hafa samt sömu fulltrúar vísað til Norðurlanda til að fá skoðanir sínar staðfestar. Þróunin er hins vegar sú að æ erfiðara er að vísa til Norðurlandanna máli þeirra til stuðnings enda er þjónusta einkaaðila mun velkomnari þar en hér og hefur verið nýtt mun markvissar sem eðlilegur og æskilegur hluti af velferðarkerfinu. Bæði í Danmörku og Noregi auglýsa sveitarfélög þjónustu einkaaðila eins og þjónustu opinberra aðila enda er unnið að því að auka fjölbreytileika í þjónustunni og bæta þannig við valkostum öllum til hagsbóta.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru sannfærðir um gildi tillögu um Velferðartorg og að árangur léti ekki á sér standa. Þá er hugmyndin í mjög góðu samræmi við bæði forvarnarstefnu borgarinnar og áherslur í velferðarmálum. Hér er um að ræða gott dæmi um verkefni sem nýst getur fjölda fólks og styttir verulega þann tíma sem það tekur að finna ráðgjöf eða meðferð við hæfi. Verkefninu er sérstaklega ætlað að sporna gegn fjölgun á biðlistum eftir úrræðum. Með markvissu framboði velferðarúrræða, hvort sem um opinbera eða einkaaðila er að ræða, er hægt að kynna fyrir fólki þá þekkingu og aðferðir sem því býðst í borginni.


Við sjálfstæðismenn lögðum því tillöguna aftur fram í aðeins breyttri mynd og þá í velferðarráði og þar var samþykkt að vísa málinu til stjórnkerfis og lýðræðisráðs, vonandi var það ekki gert bara til að "losna" við góða hugmynd. Óttinn við starfsemi einkaaðila í velferðarþjónustunni má ekki koma í veg fyrir nýjungar og úrbætur í þessum mikilvæga málaflokki.

Grein birtist í Morgunblaðinu 30. apríl 2015.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband