Ferskar og góðar hugmyndir í Reykjavík

Í ferðaþjónustunni eru mikil sóknarfæri fyrir Reykjavíkurborg. Fyrr á þessu ári var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur að skoða þau. Menningar- og ferðamálaráði var falið að skipa starfshóp sem hefði það verkefni ásamt því að skoða hvernig efla mætti kynningu og markaðssetningu á Reykjavík sem áfangastað ferðamanna. Þá skyldi einnig skoðað með hvaða hætti Reykjavíkurborg getur hvatt til nýsköpunar og eflt vöruþróun í ferðaþjónustu í Reykjavík. 

Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur, Höfuðborgarstofu, Nýsköpunarmiðstöð, Útflutningsráði og SAF (Samtökum ferðaþjónustu). Niðurstaða starfshópsins sem skipaður var í kjölfarið var að halda opið hugmyndatorg og bjóða þar öllum sem vildu að leggja til hugmyndir um hvar sóknarfæri leyndust. Gætt var að því að hafa aðgengi gott og tekið var við hugmyndum bæði munnlega, rafrænt og bréflega, allt frá bréfsnifsum að ítarlegri skýrslum. Bárust um 70 hugmyndir til hópsins.

Sjö verkefni hlutu styrki, en styrkupphæðin var um 7 m.kr.  Í starfshópnum fóru fram góðar umræður. Meðal annars sú að mjög mikilvægt sé að draga fram þá kosti og auðlindir sem borgin hefur upp á að bjóða nú þegar. Einnig að að auðvelda og auka tækifærin fyrir aðila í ferðaþjónustunni með góðu framboði af alls kyns afþreyingu fyrir ferðamenn. Val verkefnanna er byggt á þessum gildum.

Sjö verkefni hlutu styrk:
1) Vatnavinir hlutu styrki til að þróa áfram hugmyndir um  fjölbreyttari baðmenningu í Reykjavík. Vatnavinir vilja leggja áherslu á náttúruupplifun innan borgarmarkana og þannig auka fjölbreytnina og styrkja ímynd Reykjavíkur ennfrekar sem „Heilsuborg”.
2) Þórdís Ágústsdóttir hlaut styrk til að vinna að Ljósmyndasýningu í Reykjavík sem haldin verður í fyrsta sinn árið 2011 Verkefnið felst í því að skipuleggja ljósmyndahátíð í Reykjavík og gera borgina að suðupotti sköpunnar og umræðu um ljósmyndun.
3) Fyrirtækið Náttúran.is hlaut styrk til að hanna og þróa grænt Reykjavíkurvefkort sem
dregur grænu kostina í borginni sérstaklega fram, s.s. hjólastíga, náttúrugöngur, vinnustofur listamanna, þráðlaust net, kennileiti tengd vatni, náttúruleiksvæði ofl.
4) Inga Jessen hlaut styrk til að hanna og viðhalda vefsíðunni Freecitytravel.com – vefsíða þar sem ferðamenn geta nálgast fjölbreyttar upplýsingar um ókeypis afþreyingu í Reykjavík á einum stað.
5) Sigurður Hall hlaut styrk til að koma upp og viðhalda íslenskri sælkera matarsíðu byggðri á og tengdri Food and Fun hátíðinni. Markmiðið er að kynna Reykjavík sem heimsklassa matarborg. Vefsíðan verður tengd öllum þeim matreiðslumeisturum sem tekið hafa þátt í Food and Fun og íslensku veitingastöðunum.
6) Valgeir Guðjónsson hlaut styrk til að setja á svið sýningu fyrir erlenda ferðamenn sem ber heitið: Iceland in reverse: A musical journey from present Iceland to the past. Þetta er sýning með leik og söng um sögu Íslands.
7) Hönnunarmiðstöð Íslands hlaut styrk til að efna til samkeppni um Reykjavíkurminjagrip. Þess má geta að samkeppnin er hafin og þeir sem hafa áhuga eru beðnir að kynna sér málið á vefsíðu Hönnunarmiðstöðvarinnar. Keppnin er öllum opin og felst í því að hanna nýjan og einkennandi minjagrip fyrir Reykjavík. Verðlaunatillagan skal endurspegla vörumerki Reykjavíkur sem ferðamannaborgar, Reykjavík - Pure Energy. Vörumerkið vísar til þeirrar hreinu orku sem sem Reykjavík býr yfir í fleiri en einni merkingu: í náttúrunni, vatninu, menningunni og sköpunarkraftinum.

Það er afar ánægjulegt að Reykjavíkurborg skyldi stíga þetta skref til eflingar nýsköpunnar í ferðaþjónustu í borginn og ég vona að Reykjavíkurborg geti haldið áfram að styðja og hvetja fyrirtæki og einstaklinga með ferskar og góðar hugmyndir.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband