Borgarstjórn felur óþægileg gögn

Fjöldi sveitarfélaga er nú að rýna niðurstöður þjónustukönnunar Gallup. Sveitarstjórninar hafa keypt niðurgreindar niðurstöður fyrir sitt sveitarfélag til að fá upplýsingar um viðhorf íbúa til þjónustunnar og umhverfisins sem þeir búa við. Bæjarstjóri á höfuðborgarsvæðinu sem ég átti samtal við notar til dæmis niðurstöðurnar til að gera betur og hefur stofnað rýnihópa um hvernig má bæta og bregðast við. En sorglega staðreyndin er sú að það á þetta ekki við um stærsta sveitarfélagið, Reykjavík.


Fyrir 2 árum tók meirihlutinn í borginni þá skammarlegu ákvörðun að kaupa ekki lengur þessar niðurstöður. Niðurstöðurnar voru óþægilegar og neikvæðar og erfiðar fyrir meirihlutann. Niðurstöðurnar voru á þann veg að Reykvíkingar gáfu mikilvægri grunnþjónustu algjöra falleinkunn. Af 19 sveitarfélögum voru íbúar Reykjavíkur óánægðastir og ráku lestina hvað varðar ánægju með þjónustuna í skipulagsmálum, sorphirðu, grunnskóla, leikskóla, þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlaða og þjónustu til íþróttaiðkunar.


Meirihlutinn ákvað að skella við skollaeyrum, gera lítið úr viðhorfum borgarbúa og svo sem ekki í fyrsta sinn. Haldnar voru ræður sem gengu út á að gera lítið úr aðferðafræðinni sem sérfræðingar Gallup nota og meðal annars var því haldið fram að íbúar borgarinnar væru bara of kröfuharðir! Borgarbúar vita að það er ósanngjarn málflutningur. Staðreyndin er sú að ef viðhorf borgarbúa er að þjónustan sé svona léleg, þá er það einfaldlega vegna þess að hún er ekki eins góð og hún getur verið.


Meirihlutinn ákvað hins vegar að fara bara sínar eigin leiðir. Ákveðið var að fara í sérstakar mælingar með klæðskerasniðnum aðferðum. Margt er varhugavert við þá afstöðu. Meðal annars að þeir sem njóta þjónustu eru síður til í að segja sjálfum þjónustuaðilanum frá óánægju sinni þar sem þeir eru honum háðir um þjónustuna. Í slíku mælingum er ekki leitað sérstaklega að þeim sem ekki hafa fengið þjónustu og þannig má lækka niður í áhrifum hópsins sem ekkert fær eða er óánægður. Svo auðvitað að því sem athyglisverðast og marktækast er, eða samanburðinum við önnur sveitarfélög, er þá auðvitað sleppt.


Það er eindregin skoðun mín að meirihlutinn í Reykjavík ætti að leggja af þessu vondu vinnubrögð og byrja í staðinn að vinna að hagsmunum borgarbúa. Það er ekki of seint að leggja af þann leiða sið að stinga upplýsingum undir teppið eða fara í einhvers konar feluleik um óþægileg gögn.


Á síðasta borgarstjórnarfundi lagði ég til að borgarstjórn tæki á dagskrá tillögu um kaup á þessum mikilvægu niðurstöðum fyrir Reykjavík. Málið er nefnilega svo að þó að ég eða aðrir myndu gjarnan vilja, megum við ekki kaupa þessar upplýsingar sem svo sannarlega eiga heima fyrir augum borgarbúa þar sem einungis meirihlutinn í Reykjavík hefur rétt til að ákveða þau kaup. Meirihlutinn þæfði þá tillögu mína eins og flestar ef ekki allar þær tillögur sem þau meta sem erfiðar. Auðvitað vita þau að þá er erfiðara fyrir okkur hin að koma afgreiðslu málsins í fjölmiðla.


Svona eru vinnubrögðin í Ráðhúsinu um þessar mundir og hafa verið um of langt skeið. Það hins vegar breytir því ekki að þó að meirihlutinn velji feluleikinn, finna borgarbúar á eigin skinni að grunnþjónusta borgarinnar er ekki nógu góð. Það er vond staðreynd en það er huggun harmi gegn að í næstu kosningum er hægt að breyta um forystu í borgarmálunum sem ætlar að leggja áherslu á þjónustu við borgarbúa í staðinn fyrir glimmerprýdda loftkastala á fallegum kynningarfundum. Þjónusta við borgarbúa á að vera forgangsatriði og þar er hægt að gera miklu betur.

 

Grein birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2018


Lausnir í stað loftkastala

Nú þegar vel viðrar í efnahagsmálum ættu borgarbúar að vera að njóta þess í einhverjum mæli. Svo er þó ekki. Áhersla á þjónustu við íbúa er engin en púðrið fer í að byggja loftkastala og tala í frösum um hvað allt verður frábært einhvern tíma seinna. Búið er að leysa húsnæðisvandann einhvern tíma seinna, búið er að leysa samgönguvandann einhverntíma seinna og allt verður svo frábært, bara einhvern tíma seinna.

Runnið er upp fyrir borgarbúum að viðhaldi á eignum, húsnæði, aðstöðu og götum er ekki sinnt. Barnafjölskyldum er ekki sinnt. Íbúar sem þurfa aðstoð fá ekki þjónustuna sem þeir þurfa. Biðlistar eftir húsnæði lengjast. Samgöngubætur eru ekki á dagskrá og lítið er gefið fyrir kvartanir þeirra sem sitja langdvölum í umferðarteppum. Það virðist ekki í verkahring meirihlutans í Reykjavík að hlusta á fólk frekar en að bera ábyrgð á því sem miður fer.

Sem betur fer styttist í kosningar. Þá gefst borgarbúum tækifæri til að senda skýr skilaboð. Forgangsraða þarf í rekstrinum þannig að þjónusta við íbúa sé í forgangi. Hefja verður sókn í leikskóla- og menntamálum, gera starfsumhverfið aðlaðandi, auka sjálfstæði rekstrareininga og tryggja íbúum mannsæmandi þjónustu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa staðið í ströngu við að leggja fram tillögur til breytinga. Tillögur til að minna á að þjónustan við borgarbúa hefur verið vanrækt. Tillögur um nýsköpun. Tillögur um aðgerðir til að draga úr veikindum. Tillögur um samgönguúrbætur. Tillögur um innleiðingu velferðartækni. Tillögum um umbætur í ólíkum hverfum. Flestum þeirra hefur verið ýtt út af borðinu.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að höfða til breiðs hóps kjósenda til að fá umboð til leiða þetta mikilvæga umbótastarf. Til þess þarf forystan að hafa breiða skírskotun, góða reynslu og skilja fólkið sem borgarkerfið á að þjóna. Það er mitt hjartans mál að þessar umbætur nái fram að ganga. Því óska ég eftir stuðningi þínum.

Grein birtist í Fréttablaðinu 16. janúar 2018

 


Bloggfærslur 17. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband