Gjaldheimta á nagladekk?

Tillaga um heimild sveitarfélaga til gjaldtöku vegna notkunar nagladekkja var til umræðu a fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins teljum að mjög mikilvægt sé að reyna að takmarka notkun nagladekkja en ef að eigi að fara í gjaldtöku þurfi að ríkja um það verulega mikil sátt. Slíkri sátt megi vinna að með íbúakosningum.

Því lögðum við fram breytingartillögu um að heimild til gjaldtöku yrði aðeins virkjuð ef helmingur samþykkti slíkt í ibúakosningum sem gætu farið fram rafrænt. Slík kosning yrði einnig til þess að auka fræðslu um skaðsemi nagladekkja í leiðinni og jafnvel þó að ekki náist að samþykkja gjaldheimtu muni umræðan um skaðsemina eflaust fá ennþá fleiri til að hætta notkun nagladekkja. Málið er mikið umhverfismál en hins vegar eru margir til sem telja öryggi sínu ógnað nema keyra um á nagladekkjum og auðvitað eru aðstæður fólks ærið misjafnar. En i þessu tilfelli er kannski mikilvægast að tryggja það að samráði við íbúa sé sinnt og tekið alvarlega.

Lögð var fram tillaga um að á eftir 60. gr. laganna í VIII. kafla umferðarlaga (Um ökutæki) bætist við ný grein 60. gr. a, er orðast svo: Gjaldtaka af hjólbörðum með nöglum Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald af notkun hjólbarða með nöglum á nánar tilteknum svæðum. Sveitarstjórn skal ákveða gjaldtöku að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið. Með gjaldtöku er átt við gjald sem eigandi eða ökumaður ökutækis skal greiða fyrir heimild til að aka á hjólbörðum með nöglum þann tíma sem notkun þeirra er leyfð.

Þetta vildi meirihlutinn samþykkja en við vildum breytingar á tillögunni, þannig að við hana bættist aftan við fyrirliggjandi tillögu þetta hér:

"Heimild um gjaldtöku vegna nagladekkja verði aldrei samþykkt nema að undangenginni íbúakosningu í sveitarfélaginu þar sem að minnsta kosti helmingur íbúa styðji gjaldtöku. Slík kosning gæti verið rafræn."

Með því viljum við taka undir mikilvægi fræðsluátaks í því skyni að takmarka notkun nagladekkja. Notkun nagladekkja er talin gríðarlega neikvæð fyrir umhverfið, heilsu og lífsskilyrði og allar tilraunir til að minnka notkun þeirra eru mikilvægar. Notkun nagladekkja hefur tengst umferðaröryggi frekar í hugum margra en umhverfismálum og það um langa hríð. Slíka viðhorfsbreytingu þarf því að undirbúa í miklu samráði við íbúa. Eins þarf að skoða hvort íbúar geti treyst á mokstur og vetrarþjónustu í sveitarfélaginu og að hvaða marki. Því telja fulltrúar Sjálfstæðislokkisins að við fyrirliggjandi tillögu þurfi að bæta við ákvæði um að heimild um gjaldtöku verði aldrei samþykkt nema að helmingur íbúa hafi samþykkt það í undangenginni íbúakosningu. Slík kosning geti að sjálfsögðu verið rafræn. Íbúakosning af því tagi myndi einnig leiða af sér gríðarlega sterkt kynningarátak um skaðsemi nagladekkja og skilað miklum árangri.

Málinu var svo frestað. 

 


Bloggfærslur 24. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband