Uppbygging og endurgerð sögufrægra húsa í Reykjavík

Í dag samþykkti borgarstjórn tillögu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks um sérstakt átaksverkefni til að endurgera og byggja upp sögufræg eldri hús og mannvirki í Reykjavík.

Þetta finnst mér frábært og jákvætt verkefni. Verkefnið byggir á Halland-verkefninu sem ættað er frá Svíþjóð og miðar að því meginmarkmiði að treysta menningarauð borgarinnar. Með verkefninu geta skapast störf, samhliða því að hægt er að auka á menntun og reynslu fagstétta á borð við arkitekta, verkfræðinga og iðnaðarmenn við endurgerð gamalla íslenskra mannvirkja.

Meira um málið: 

"Óskar Bergsson, formaður borgarráðs segir átak við endurgerð gamalla húsa styðja við áætlanir Reykjavíkurborgar um að hefja mannaflsfrekar framkvæmdir, til að sporna við frekari þróun atvinnuleysis. Í hópi þeirra 12.000 einstaklinga sem eru atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu er fjöldi iðnaðarmanna, arkitekta, verkfræðinga og annarra er hafa starfað í byggingariðnaði á Íslandi. Varðveisla gamalla húsa og/eða mannvirkja skapar möguleika á störfum fyrir þessar starfsstéttir, auk þess sem varðveislan hefur menningarsögulegt gildi og mun án efa auka aðdráttarafl borgarinnar sem ferðamannaborgar enn frekar.

Reykjavíkurborg hefur þegar aflað verðmætra upplýsinga um gömul hús og varðveislugildi þeirra með þeim fjölmörgu húsakönnunum sem framkvæmdar hafa verið  í grónum hverfum á undanförnum árum. Reykjavíkurborg mun leita samstarfs við Vinnumálastofnun og aðila vinnumarkaðarins um verkefnið og skipa stýrihóp í apríl sem mun útfæra aðgerðaráætlun vegna verkefnisins. Stýrihópurinn verði meðal annars skipaður fulltrúum frá Reykjavíkurborg, Vinnumálastofnun, Samtökum iðnaðarins og Meistarasambandi byggingarmanna.

Reykjavíkurborg mun líta til reynslu annarra, sérstaklega til Halland verkefnisins sem er af sænskum uppruna en hefur verið útfært í Litháen, Póllandi og Rússlandi og er í þróun á Ítalíu um þessar mundir, meðal annars í samstarfi við háskólann í Feneyjum. "

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, þetta er frábært verkefni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.4.2009 kl. 01:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband