Blekkingar?

Sumir halda því fram að augljóst sé að stjórnmálafólk í æðstu stöðum hafi í raun vitað miklu meira en látið var uppi í fyrstu um vanda bankanna og hversu afdrifaríkar afleiðingar hann gæti haft. Þetta er svo aftur notað sem rök fyrir því að þau hafi verið að blekkja fólk og draga það á asnaeyrum. Mig langar aðeins að leggja nokkur orð í belg.

Setjum okkur í spor þessara kjörnu fulltrúa. Á skömmum tíma varð vandi bankana gífurlega mikill vegna lánsfjársskorts, sem átti uppruna sinn í húsnæðislánakerfi Bandaríkjanna. Ljóst er að bankarnir höfðu siðast liðið ár unnið að því að selja eignir og hagræða en lítið dugði. Að sama skapi höfðu aðgerðir til að efla gjaldeyrisforðann ekki verið nærri því eins miklar og þurft hefði til að verja bankanna, sem höfðu stækkað mjög mikið á undanförnum árum. Þegar stjórnmálamenn voru beinlínis kallaðir að borðinu var vandamálið orðið slíkt að ríkisstjórn og Alþingi fengu ekki rönd við reist.

Við slíkar aðstæður skiptir máli að meta umfang vandans og ná tökum á honum í stað þess að bera hann á torg og vekja ótta með ótímabærum yfirlýsingum. Slíkt hefði einungis leitt af sér frekari erfiðleika. Menn trúðu að hægt væri að sigla framhjá ísjakanum og áttu alls ekki von á þeim áföllum sem alþjóðakreppan hefur kallað yfir bankakerfið. 

Þegar rýnt er í þessa stöðu af sanngirni er auðveldara að skilja viðbrögð ráðamanna sem löngum héldu því fram að bankarnir stæðu vel.  Að undanförnu hafa myndskeið og tilvitnanir ítrekað verið endurspiluð og rifjuð upp í fjölmiðlum að því er virðist beinlínis í þeim eina tilgangi  að grafa undan trúverðugleika stjórnamálamanna og annarra og má nefna í því sambandi  Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu, Þórð Friðjónsson o.fl.   Minna hefur að sjálfsögðu farið fyrir því, að  fréttamiðlarnir rifji upp eigin sýn á ágæti bankanna og útrásarinnar, þegar allt lék í lyndi.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á.  Það sem við getum lært af atburðarásinni er að ekkert okkar hafði nægilegar upplýsingar til að sjá þessa hluti fyrir.  Vandamálið var til skamms tíma ósýnilegt stjórnvöldum, alþingismönnum, fjölmiðlum og hvað þá almenningi.  Ekki var hægt að lesa hættumerkin úr uppgjörum eða niðurstöðum neins eins félags eða fyrirtækis og allt leik í lyndi í ríkisfjármálunum. Eftirlitsstofnanir fylgdust með og töldu reksturinn í eðlilegum skorðum. Annað kom svo í ljós þegar á reyndi.


Við þurfum að læra af því sem hefur gerst og bregðast við til að sagan endurtaki sig ekki.

Mikilvægi þess að byggja á góðum upplýsingum er gríðarlegt. Mikilvægt er að stjórnvöld hugi að því hvernig bæta megi úr þessum vanda í framtíðinni. Sífellt þarf að vera að endurskoða upplýsingastreymi til ráðamanna, fjölmiðla og almennings. Upplýsingar þurfa að vera til staðar, aðgengilegar á einum stað á skiljanlegan hátt, ekki bara fyrir fáa útvalda heldur fyrir alla sem hafa áhuga á að kynna sér þær.  Á upplýsingaöld ætti slíkt að vera gerlegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Sem barni hafði mér verið gert það fullskiljanlegt að á bak við alla fjármuni væri framleiðsla.  Verðmæti gætu aldrei orðið til úr engu.

Ég geri þá grundvallarkröfu til þeirra sem ég hef valið og treyst fyrir mér og mínum, að þeir viti þetta.

Málið er svo augljóst að engin ráðherra gæti borið því við að hann vissi ekki þessi sannindi sem allir vita.

Hvort ráðamenn þjóðarinnar vissu af þessum gífurlegu skuldsetningum.

Að sjálfsögðu þeir innheimtu skatt af þessum fyrirtækjum og þar eru allar skuldir þessara fyrirtækja skráðar.

Við erum að tala um skuldsetningu þjóðarinnar upp á a.m.k. 14 falda þjóðarframleiðslu.

Það er beinlínis greindarskortur að sjá það ekki 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 11.11.2008 kl. 01:31

2 Smámynd: Þorsteinn Mar Gunnlaugsson

Ég veit ekki hvor ber þyngri sök, sá sem blekkir eða hinn blekkti?

Þegar við horfum upp á hrun með þeim hætti sem nú er orðið og allir stjórnmálamenn líta svo á að það sé ekki á þeirra ábyrgð, þá hlýtur eitthvað meira en lítið að vera að. Eins og Alma benti á, þá hljóta þessir ráðamenn okkar að hafa séð í hvað stefndi og úr því að svo fór sem fór, þá hljóta þeir að taka ábyrgð á því að ekki tókst að afstýra því.

Nú, eða einfaldlega taka ábyrgð á því þeir eru heimskir!

Hvort tveggja verður ofan á, skiptir mig ekki máli. Ég er ekki sáttur við ástandið og finnst ansi hart að horfa upp á að dóttir mín og hugsanlega börn hennar þurfi að gjalda fyrir sakir núverandi kynslóða. Ég sé ekkert að því að við sem tókum þátt og vorum meðvirk gjöldum fyrir þær sakir okkar en að börnin okkar þurfi að gera það?

Jæja, þau læra þá kannski að fara betur með peninga en okkar kynslóðir virðast gera.

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, 11.11.2008 kl. 11:25

3 Smámynd: Agla

Snjallt þetta með lýðræðislega  blekkingarréttinn!

Vissu ráðamennirnar kannski allan tíman hvernig málin stóðu og hvert stefndi en voru bara að sinna blekkingarréttarskyldum sínum við kjósendur?

Ég skildi samt "Blekkingar?" pistilinn þannig að enginn hefði sagt þeim frá neinu!

Nú ættu þeir  hinsvegar að vera búnir að átta sig á hlutunum og líka því að fólk er orðið þreytt á blekkingum og sjálfsblekkingum. Kannski fara þeir bráðum að gefa  frá sér upplýsingar í staðin fyrir þessar endalausu og leiðigjörnu "væntingar" og ívisanir í þagnarskyldu og trúnaðarmál.

Agla, 11.11.2008 kl. 11:29

4 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Er það þá ekki barnaleg einföldun Eggert K., að hafa setið fund í sumar (júní held ég) þar sem skýsrla sem Landsbankinn lét erlent fyrirtæki gera um stöðu bankans var kynnt jafn gravalvarleg og hún var að kalla það svo venjulegan bankafund og "morgunverðarsnakk"!!

Fjármálaráðherra landsins!!

Vilborg Traustadóttir, 11.11.2008 kl. 21:02

5 Smámynd: Sævar Helgason

Og þessir Icesave reikningar í Bretlandi og Hollandi voru "snilldarbragð" Landsbankans þegar allir bankar voru búnir að loka á þá með lánafyrirgeiðslu.

Gríðarlegum fjármunum var sópað saman inná þessa reikninga.  Yfirvöldum á Íslandi var vel kunnugt um gjörningin.  Og nú eru þessir reikningar að fara með Ísland norður og niður til áratuga....  Stjórnvöld á Íslandi- hvað er það ? Aðhláturefni um heim allan... en dýrt spaug fyrir okkur

Sævar Helgason, 11.11.2008 kl. 21:07

6 Smámynd: Júlíus Björnsson

Í Bandaríkjum átti m.a. sporna við atvinnuleysi og Bandaríkiskar lánastofnanir virðist ekki hafa litið framhjá Bandaríka Seðlabankanum.  Á Íslandi gaf stærð Íslenska Seðlabankans einkabönkum aldrei ástæðu til að taka þá áhættu sem þeir virðast hafa tekið. Þeir hefðu og sjálfir geta eflt sinn eigin gjaldeyrisforða og tekið upp bindisskyldu gagnvart vafasömum viðskiptaskuldunautum: í líkingu við þá sem Búnaðarbankinn hafði þegar ég var framkvæmdastjóri í viðskiptum við hann. 

Júlíus Björnsson, 11.11.2008 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband