Yngstu börnin í forgang

Nýr meirihluti í borginni setur þjónustu við yngstu börnin í forgang. Starfsmannavelta hefur hrjáð leikskólana síðustu 3 ár og komið niður á hversu mikla þjónustu hefur verið hægt að bjóða fjölskyldum. Þetta hefur haft áhrif á vinnuumhverfi starfsfólks sem hefur engu að síður af dugnaði og jákvæðni tekist á við vandann. Meðalaldur barna sem boðið er komast að hefur hækkað og sumar fjölskyldur hafa þurft að mæta  skertri þjónustu og þurft að hverfa af vinnumarkaði sem því nemur. Nýr meiri hluti mun bregðast við þessu ástandi til hins betra.

Áætlun nýs meirihluta er þríþætt: 

 Í fyrsta lagi  verður unnið að fjölgun rýma í borgarreknu leikskólum í eldri hverfum borgarinnar og fjölgun deilda til að koma til móts við kröfur um aukinn dvalartíma barna og fjölgun yngri barna í leikskólum borgarinnar.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að taka í notkun glæsilega nýja  leikskóla í nýbyggingarhverfum borgarinnar við Árvað í Norðlingaholti, í Úlfarsárdal og á Vatnsmýrarsvæði.   Vel heppnuð hugmyndasamkeppni um hönnun leikskóla skilaði borginni þremur glæsilegum teikningum af leikskólum framtíðarinnar þar sem tekið var mið af þörfum barna og starfsmanna á 21. öld. 

 Í þriðja lagi munu áætlanir leikskólasviðs gera ráð fyrir að auka val foreldra á þjónustu fyrir allra yngstu börnin þannig að í boði sé fjölbreytt og traust þjónusta við foreldra með börn frá eins árs aldri.  Í þessu felst að styrkja annars vegar eftirsótta þjónustu sem nú er í boði en af skornum skammti, líkt  og dagforeldraþjónustu og þjónustu einkarekinna leikskóla fyrir yngstu börnin en bjóða um leið upp á fleiri úrræði til að fjölga valmöguleikum á þjónustu fyrir foreldra sem byggjast á ólíkum þörfum barna.  Gert er ráð fyrir verulegum fjármunum í þessa þjónustu á næstum þremur árum en teknar hafa verið frá stighækkandi fjárhæðir á tímabilinu allt að 400 milljónum króna til að mæta auknum útgjöldum vegna þessa.  Útfærslur á þessum hugmyndum verða kynntar betur á næstunni þegar leikskólaráð Reykjavíkurborgar hefur um þær fjallað. 

Til viðbótar við þessa þrjá liði eru fjölmörg verkefni framundan á næstu þremur árum til að byggja upp betri og faglegri starfsemi í leikskólum borgarinnar.   Stefnt er að fleiri verkefnum til að fjölga fagfólki í skólana og í stéttina almennt og að nýta sveigjanleika sem er boðaður í frumvarpi til laga um leikskóla sem nú liggur fyrir á þingi.   Unnið er að endurskoðaðri stefnu um sérkennslu fyrir leikskólana og í kjölfarið verða sett markmið um framkvæmd hennar.  Samræmd innritun fyrir alla þjónustu sem borgin kostar eða niðurgreiðir er forgangsverkefni á næstu misserum.  Með samræmdri innritun verður aðgengi foreldra að þjónustu og upplýsingaflæði til foreldra bætt verulega.   Þá má nefna spennandi verkefni eins og barnahátíð  í samstarfi við menningar- og ferðamálasvið og nýja hugsun í gæsluvallarmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Velkomin á bloggið Áslaug

Vilborg G. Hansen, 5.3.2008 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband