Tími er kominn á varnarleikinn

Nu er orðið tímabært að fara að skilgreina varnarleikinn. Reykjavíkurborg hefur sett sér ferðamálastefnu sem gilda á til 2020. Strax fljótlega eftir að hún var samþykkt var ljóst að stefnan var sprungin því fjölgun ferðamanna var orðin margfalt meiri en gert var ráð fyrir. Vorið 2014 lögðum við Sjálfstæðismenn fram tillögu um að stefnan yrði endurskoðuð með hliðsjón af þessari miklu fjölgun. Nú liggur brátt fyrir endurskoðuð aðgerðaráætlun menningar- og ferðamálasviðs vegna þessa sem er hið jákvæðasta mál. Stefnan byggir þó mest á sóknarleiknum, enda byggir hún í grunninn á að skapa tækifæri í ferðaþjónustu sem auðvitað var gríðarlega mikilvægt.

Engu að síður er ýmislegt í farvatninu sem kallar á að nú sé tímabært að farið verði í að skilgreina varnarleikinn. Hvernig gætum við þess að fjölgun ferðamannanna hafi ekki neikvæð áhrif á lífsgæði íbúa. Hingað til hefur mest verið bent á að enn vanti hótelherbergi, ferðamenn séu ánægðir, íbúar njóti þess að búa við betri þjónustu og fjölbreyttara framboð veitingahúsa.

Hins vegar má merkja margt annað sem er síður jákvætt. Húsnæðisvandinn er viðverandi og alvarlegur skortur er á húsnæði í Reykjavík. Þetta er rauði þráðurinn meðal annars í skýrslu Rauða Krossins: "Fólkið í skugganum", og ljóst er að hefur gríðarlega neikvæð áhrif á lífsgæði. Húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu er tilkominn meðal annars vegna skammtímaleigu sem aftur er m.a. vegna skorts á hótelrýmum og því að tekjumöguleikar þeirra sem leigja íbúðir er meiri í skammtímaleigu en gengur og gerist á almennum leigumarkaði. Auðvitað er hann einnig til kominn vegna þess að skortur er á byggingarlóðum og íbúðum fjölgar ekki sem skyldi, ekki eru haldin loforð um fjölgun félagslegs húsnæðis, né því að stuðla að framboði ódýrra íbúðá þrátt fyrir stór og mikil kosningaloforð. Skorturinn leiðir til þess að leiguverð verður gríðarlega hátt og nánast ómögulegt er fyrir stóra hópa fólks að komast af á húsnæðismarkaði, sérstaklega ungs fólks og tekjulágra. Svo stór þáttur eins og húsnæðisþátturinn getur haft gríðarleg áhrif á upplifun notenda gagnvart ferðaþjónustu. Margt fleira má nefna eins og samgöngur og álag vegna ferðamanna, rútuumferð, umferð gesta á öllum tímum sólarhrings og mörg önnur atriði sem berast okkur borgarfulltrúum frá íbúum. Nú síðast mátti merkja óánægju bæði ferðamanna og íbúa með gríðarlegt álag á þeirri fábreyttu þjónustu sem í boði var til dæmis nú yfir hátíðarnar þar sem algjört misræmi virtist vera milli ásóknar og þess sem var í boði.  

Mikið og vel hefur verið fjallað um jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar. Og það má vel viðurkenna það að þau eru jákvæð og góð. En þrátt fyrir það má ekki gleyma að tala um það sem neikvætt er og gæti skaðað samfélagið ef ekkert er að gert. Algjörlega er orðið tímabært að fara að horfa á og skilgreina hvaða þættir það eru í ferðaþjónustunni sem hafa neikvæð áhrif á sambýlið við íbúa og skilgreina þolmörkin, gæta þess að sambýlið haldist á jákvæðum nótum og leyfa íbúum að njóta þess að ferðaþjónustan blómstrar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband