Kæru borgarbúar, ykkar viðhorf eru einskis virði!

Talið er að viðhorf fólks geti spáð fyrir um viðbrögð. Einhvern veginn svona er sambandið: Því sterkara sem viðhorf til einhvers hlutar eða málefnis er því líklegra er að viðkomandi sýni meiri viðbrögð við hlutnum eða málefninu.

Viðhorf eru hins vegar þannig að ekki er hægt að gefa sér á einfaldan hátt hverju þau stýra. Ræður til dæmis slæmt viðhorf til þjónustu það að ég noti hana ekki? Tja, kannski ekki alltaf. En ef val er um að velja þjónustu þar sem viðhorf til annarrar er gott en til hinnar slæmt, þá er mjög liklegt að sú fyrri verði fyrir valinu séu þessar þjónustur að öðru leyti frekar jafnar. Víst er að um mjög tilfinningalegt mat er að ræða og það byggir ekki endilega á þekkingu um fyrirbærið sem metið er. Mjög margt er jafnframt hægt að gera til að snúa viðhorfum fólks, þarna geta til dæmis kynning og fræðsla verið alveg gríðarlega mikilvægir þættir.   

Viðhorf til þjónustu í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum hafa verið mæld í nokkur ár. Niðurstöðurnar hafa verið erfiðar fyrir Reykjavík. Viðhorfið mælist á nærri öllum víddum mjög lágt miðað við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir að Reykjavík reki miklu víðfemari þjónustu, með miklu meiri kostnaði virðist viðhorf til þjónustunnar í Reykjavík ítrekað skrapa botninn.

Meirihlutinn í Reykjavík hefur lítið viljað gera með viðhorf borgarbúa í Reykjavík. Alls kyns afsakanir og skýringar hafa verið gefnar, allt frá því að þetta skipti engu máli yfir í að borgarbúar séu of kröfuharðir.

Nú vill meirihlutinn fara að nota sínar eigin aðferðir og mæla sína eigin hópa eða notendur þjónustunnar í Reykjavík. Það er kannski skiljanlegt því í þeim könnunum fær þjónustan mun betri einkunn. Ýmislegt er hins vegar varhugavert við þá afstöðu. Meðal annars að þeir sem njóta þjónustu eru líklega ánægðari en þeir sem ekki njóta hennar, þeir eru örugglega síður til í að segja sjálfum þjónustuaðilanum frá óánægju sinni þar sem þeir eru honum háðir um þjónustuna, ekki er leitað sérstaklega að þeim sem ekki hafa fengið þjónustu og þannig má lækka niður í áhrifum hópsins sem ekkert fær eða er óánægður. Svo auðvitað að því sem athyglisverðast er, eða samanburðinum við önnur sveitarfélög, er þá sleppt. :-(  

Svona að þessu öllu saman sögðu er það eindregin skoðun mín að meirihlutinn í Reykjavík ætti að byrja að vinna að sínum málum í stað þess að stinga þeim undir teppið.

Mikilvægt er að þjónustan í Reykjavík sé eins góð og kostur er og jafn mikilvægt er að viðhorf til hennar séu góð. Viðhorf geta haft áhrif á það hvar fólk sækir um vinnu eða starfar, hvar það býr, hvar það ákveður að framkvæma hluti, hvar það ákveður að búa. Ef að það er einlæg trú meirihlutans í Reykjavík að þjónustan sé mjög góð, þá virðist eitthvað mjög ábótavant í kynningarmálum. Og þá ætti að sjálfsögðu að fara í að skoða það í stað þess að gera lítið úr niðurstöðum og losa sig við óþægilegar upplýsingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband