"Ha! ég að skera niður grunnþjónustu?"

Mikið ferlega er illa komið í Reykjavík, í annars góðri tíð. Auðvitað setja kjarasamningar strik í reikninginn en það er aðeins hluti vandans. Hinn hlutinn er arfaslök forgangsröðun og það að taka það ekki alvarlega að skatttekjur dugi ekki fyrir því sem það kostar að reka þjónustu fyrir íbúa. 

Nú hafa borgarstjóri og fylgdarsveinar hans reynt að mótmæla því að þeir hafi nokkuð með þessi mál að gera, allt séu þetta utanaðkomandi þættir sem ekkert hafi verið hægt að eiga við. Því miður eru það hin mestu ósannindi. Ítrekað hefur hópnum verið bent á að þjónustuhlutinn sé rekinn í tapi, ítrekað hefur honum verið bent á að Reykjavíkurborg hafi "bólgnað" nokkuð ískyggilega og hratt án þess að hægt sé að skýra það til hlítar. Ítrekað hefur honum verið bent á að verið sé að sóa fé almennings með slakri stefnu og lítilli eftirfylgni. Ítrekað hefur meirihlutanum verið bent á að þetta leiði til skuldasöfnunar sem á endanum muni leiða til skerðingar á grunnþjónustu og það í nokkur ár.

Eitt megineinkenni meirihlutans í borginni er að útfæra lítið af því sem þau hafa í hyggju. Þannig var um 1,8 milljarða niðurskurður útskýrður í fjárhagsáætlun með skýringunum - óútfærð hagræðing. Svo þegar útskýringarnar komu löngu síðar þá fjölluðu þær um að "leitað yrði lausna", "starfsfólki yrði falið" og fleira í þeim dúr.  Með því móti þurfa aðrir að taka erfiðu ákvarðanirnar. Það er gott að vera hvítþveginn og koma alltaf að fjöllum þegar talið berst að skerðingu grunnþjónustu.

Tilefni þessa greinarstúfs er einmitt það að nú berast alvarlegar athugasemdir og áhyggjur frá skólastjórnendum, kennurum og foreldrum til borgarfulltrúa. Sá hópur talar alveg skýrt - niðurskurðurinn eins og honum hefur verið stillt upp er skerðing á grunnþjónustu. 

Sýningum á leikritinu - Ha! ég að skera niður grunnþjónustu? má alveg fara að linna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband