Forgangsröðun meirihlutans er skýr - hann er í fyrsta sæti.

Mikill slaki er í rekstrinum í Reykjavík, langt umfram það sem er hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og því aumt að sjá meirihlutann útskýra erfiðleika sína með vísun til þess að launahækkunum sé um að kenna eða að ríkið skuldi sveitarfélögum fé til rekstursins. Vissulega hafa þeir þættir áhrif en vanda Reykjavíkur er ekki hægt að skýra svo auðveldlega. Slaki gagnvart alls kyns verkefnum af öllu tagi ógnar nú grunnþjónustu til dæmis þjónustu við aldraða og fatlaða.

Áhugavert er að fylgjast með því hvernig oddviti Bjartrar framtíðar reynir ítrekað að nota Orkuveituna og Planið góða til að flagga ímynduðu ágæti meirihlutans í rekstrarmálum og í þeirri von að halda á lofti þeim misskilningi að Sjálfstæðismenn beri þar meiri ábyrgð en aðrir. Oddviti Bjartrar framtíðar ætti frekar að veifa flagginu framan í borgarstjóra og aðra samstarfsmenn sína í meirihlutanum sem skipuðu eða studdu R-listann á sínum tíma. R-listinn leiddi nefnilega í 12 ár skulda og arðgreiðslustefnuna sem flestir fordæma nú og ber þess vegna meiri ábyrgð en aðrir. Sjálfstæðismenn geta tekið á sig að hafa ekki snúið strax frá þeirri stefnu um leið og færi gafst en langur vegur er þangað að hægt sé að halda því fram að hann beri meiri ábyrgð en aðrir á vanda Orkuveitunnar.

Nú eru flestir sammála um það að læra af þessum mistökum. Mest sammála hafa þó virst þeir sem helst studdu arðgreiðslustefnu OR og hreyktu sér af henni á sínum tíma. Flestir hefðu því haldið að þessi tími væri liðinn undir lok í Reykjavík. Það vakti því mikla furðu þegar annað kom á daginn, þegar meirihlutinn opinberaði fjárhagsáætlun og 5 ára áætlun borgarinnar. Nú treystir meirihlutinn í Reykjavík sér ekki til að gera rekstur grunnþjónustu sjálfbæra næstu árin nema með gamla leiknum – sækja fé úr rekstri Orkuveitunnar. Forgangsröðunin er því augljós. Í stað þess að gera kröfur til sjálfs sín um hagræðingu, um að beita aðhaldi og greina grunnþjónustu frá verkefnum sem minni þörf er á, skal fjármagna stefnuleysið með arðgreiðslum.

Íbúar og greiðendur orkugjalda í Reykjavík hafa tekið á sig gjaldahækkanir Orkuveitunnar sem nauðsynlegar voru eftir hrun án þess að eiga mikið val. Hið sjálfsagða væri því að meirihlutinn tæki frekar þá ákvörðun að beina því til stjórnar Orkuveitunnar að lækka þessi gjöld, ef raunverulegt færi gefst til þess á næstunni, í stað þess að verja þeim í eigin óráðsíu.

Borgaryfirvöld ættu einnig að skilja að um áramót hækkar fasteignamat verulega og sérstaklega í Reykjavík. Í sumum hverfum um nærri 17%. Svo virðist sem skilningur meirihlutans í Reykjavík á því gjaldastreði sem Reykvíkingar glíma við sé enginn. Kaldhæðnin í því er að borgarstjóri hefur lofað gulli og grænum skógum í húsnæðismálum og meðal annars haldið því fram að hann vilji vinna ötullega að því að húsnæði bjóðist á viðráðanlegu verði. Hvoru tveggja hækkun orkugjalda og hækkun fasteignagjalda hefur þau áhrif að húsnæðisverð hækkar. Meirihlutinn sýnir því litla athygli, lækkar hvorki fasteignaskatta né hefur í hyggju að leyfa íbúum að njóta lægri orkugjalda.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um við hvaða verðbólguspá sveitarfélögin miða. Í ljós kemur að Reykjavíkurborg miðar við hærri verðbólguspá en Seðlabankinn og mun láta gjaldskrár hækka samkvæmt henni. Hér er að sjálfsögðu verið að leggja grunn að nýjum gjaldaálögum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband