Ný sýn á staðnaða þjónustu

Svona þegar borgarfulltrúar meirihlutans eru tilbúnir til að fara að sinna sínu hlutverki og ræða eigið fjármálaklúður þá eru hér mikilvæg málefni.

Velferðarþjónusta Reykjavíkurborgar hefur staðnað og fylgir ekki þörfum samtímans. Í dag er nauðsynlegt að fyrir hendi sé sveigjanleg þjónusta, sem er veitt á forsendum notenda. Í stað pappírsvinnu og biðlista þarf skjót viðbrögð og aðgerðir. Velferðarþjónustu borgarinnar stendur ógn af því hve lítinn áhuga meirihlutinn sýnir þessum mikilvæga þætti í starfi Reykjavíkurborgar.

Í stefnu og framkvæmd meirihlutans hefur ekki verið lögð áherslu á að aðstoða fólk til sjálfshjálpar. Afleiðingin lýsir sér meðal annars í svo kallaðri veikleikavæðingu. Stefnuleysi meirihlutans skilar lakari árangri og þjónustan er dýrari en ella.

Vísbendingar um að núverandi fyrirkomulag gangi ekki upp eru fjölmargar. Fjölgun aldraðra hefur verið staðreynd í fjöldamörg ár. Þörfum aldraðra og fatlaðra um sveigjanlegri og persónulegri þjónustu hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Stuðningsþjónusta er í uppnámi í mörgum tilfellum og biðlistar staðreynd. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars sú að ekki hefur verið horft til nýsköpunar og fjárfestingar til að koma breytingum af stað. Og framundan eru blikur á lofti. Óvíst er hvort hæft starfsfólk fáist til að starfa á þessum vettvangi, laun eru lág og starfsumhverfi ábótavant. Vinna þarf að því að gera störfin eftirsóknarverðari.

Þrátt fyrir að meirihlutinn hafi nýtt sér heimildir til álagningar útsvars út í æsar er borgarsjóður rekinn með halla. Meirihlutinn sparar ekki gæluverkefnin en á sama tíma er lögbundnum verkefnum ekki sinnt sem skyldi. Augljóslega þarf að auka framlag til velferðarmála.

Ný nálgum nauðsynleg
Til að ná betri árangri þarf að breyta framkvæmd velferðarþjónustunnar í grundvallaratriðum. Það er misskilningur að borgarstarfsmenn einir geti veitt þá þjónustu sem þarf að vera fyrir hendi. Velferðarþjónusta á að vera almenn og sjálfsögð. Auðvelda þarf aðgengi að þjónustunni og hvetja þarf fólk til að nýta hana tímalega og koma þannig í veg fyrir að vandamálin hlaðist upp og verði lítt viðráðanleg og mun kostnaðarsamari. Til að auka fjölbreytni og faglega þjónustu má auðvelda fagfólki utan borgarkerfisins að bjóða upp á hana.

Kostirnir eru margir, meðal annars eftirfarandi:

1. Útboð. Bjóða þarf út þjónustu þannig að fyrirtæki geti tekið að sér að veita grunnþjónustu, að uppfylltum sambærilegum kröfum og gerðar eru innan borgarkerfisins. Greiðslur fyrir að sinna slíkri þjónustu kæmu úr borgarsjóði. Eins má sjá fyrir sér að hópar eða teymi fólks, jafnvel teymi innan borgarkerfisins geti tekið að sér verkefni með þessum hætti.

2. Nýsköpun. Nýir aðilar sem koma að þessum verkefnum eru mun líklegri til að aðlaga þjónustu að viðskiptavinum sínum og finna bestu leiðir að settu marki. Mun meiri líkur eru því á nýsköpun og betri lausnum.

3. Meira einkafjármagn. Fyrirtæki, sem taka að sér grunnþjónustu, eru líkleg til að fara í enn meiri þróun og bjóða upp á valkvæða þjónustu. Fjármagn til velferðarþjónustunnar eykst.

4. Eftirsóknarvert starfsumhverfi. Tækifæri skapast til að bæta starfsumhverfið, hækka laun og laða að sér gott starfsfólk. Minna fé fer í dýrar yfirbyggingar.

5. Aukin ánægja með þjónustuna. Sá sem vill þjónustu velur hvert hann leitar. Slíkt leiðir til meiri ánægju með þjónustuna, en eins og margir vita hefur Reykjavíkurborg komið einstaklega illa út úr þjónustukönnunum undanfarin ár.

6. Styttri bið og minni tímasóun. Með þessu fyrirkomulagi má sporna við þeirri þróun að langir biðlistar myndist. Notendur fá meira val. Því fleiri sem nálgast fyrr þá þjónustu sem hentar, þeim mun betra og skilvirkara verður velferðarkerfið.

7. Aukin vitund um velferð. Hverfa þarf frá þeirri stefnu að aðeins þeir sem verst eru staddir noti velferðarþjónustuna. Slík þjónusta á að vera jafn almenn og heilbrigðisþjónusta. Þörfinni er mætt fyrr, forvarnir virka betur og þeim fækkar sem komast í þá stöðu að geta ekki bjargað sér.

Ný nálgun er nauðsynleg. Breyting í framangreinda átt hefur verið gerð annars staðar til dæmis á Norðurlöndum. Af einhverjum furðulegum ástæðum hefur meirihlutinn í Reykjavík ekki sýnt þessum lausnum áhuga. Spjótin standa á þjónustunni í Reykjavík. Fráfarandi borgarfulltrúi meirihlutans, formaður velferðarráðs til margra ára hefur skýrt frá því að hafa ekki verið sannfærður um gæði hennar. Hvenær, ef ekki þá, er kominn tími til skoða nýjar leiðir og lausnir? Ekki stendur á fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Við höfum undanförnum árum lagt fram fjölda tillagna til úrbóta. Hefjumst nú handa og göngum til verks.

Grein birtist í Morgunblaðinu 21.9.2015

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband