Sjálfhelda forræðishyggjunnar?

Nú í nóvember gengu í gildi lög um neytendalán. Markmið laganna er að vernda neytendur og eflaust er í þeim margt gott sem bætt getur viðskiptahætti á Íslandi neytendum í hag. Eitt verður þó að skoða sérstaklega.  Á vanskilaskrá eru um 28 þúsund einstaklingar. Með tilkomu laganna má gera ráð fyrir að þessi hópur stækki og að fleiri einstaklingar og fjölskyldur lendi í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum.

Langtímavandamál í stað tímabundinnna vandræða
Algengt hefur verið að fá yfirdrátt í banka eða gera lánasamninga til að dreifa þyngri byrði yfir á fleiri mánuði og fjölmargir hafa þannig náð að bjarga sér.  Ný lög um neytendalán gera ráð fyrir að lánastofnanir setji sér lánshæfismörk og veiti ekki fyrirgreiðslu nema að viðskiptavinir uppfylli þær kröfur. Afleiðingin er sú að vegna óhagstæðrar viðskiptasögu verður fjölmörgum nú meinað um úrræði til að brúa tímabundna fjárhagsörðugleika sem eykur líkur á að þeir lendi í vanskilum. Viðskiptasaga hefur svo aftur áhrif á lánshæfismatið en það gerir þeim sem lent hafa á vanskilaskrá eða átt í tímabundnum vandamálum ennþá erfiðara fyrir að bæta stöðu sína. Einstaklingum á vanskilaskrá gæti þannig fjölgað.  Þeir sem að ná því takmarki að komast af vanskilaskrá eru nú engan veginn sloppnir úr klemmunni því viðskiptasagan heldur þeim undir lánshæfismati og þannig í sjálfheldu. Nauðsynlegt er að skoða hvort áhrifin af lagasetningunni geti verið þau að það sem áður gat flokkast til tímabundinna vandræða verði nú í meira mæli  langtímavandamál.

Aðlögunartími er nauðsynlegur
Göfugt er að reyna að koma í veg fyrir að fjölskyldur geti lent í þeim aðstæðum eins og hér sköpuðust eftir hrun. Einnig að lántakendur hafi meiri rétt gagnvart lánveitendum með alls kyns upplýsingagjöf og annað slíkt.

Hins vegar er ekki hægt að horfa framhjá því að við of mörgum einstaklingum blasir nú, að staða þeirra verður verri eftir að ný lög tóku gildi. Til að takast á við breyttar aðstæður þarf góðan undirbúningstíma. Þegar löggjöf hefur jafn mikil áhrif á afkomu fjölskyldna og lög um neytendalán er nauðsynlegt að vanda kynningu þeirra vel. Því miður er staðan sú að margir gera sér enga grein fyrir áhrifum laganna.  Um leið leita á mann spurningar um hvort farið hafi verið of langt í foræðishyggjunni við setningu þeirra eða  hvort frekar sé verið að vernda lánafyrirtækin frá því að lána fólki sem ekki á sér slétta og fellda viðskiptasögu eins og algengt er. Eða gleymdu menn þessum hópi?

Þeir sem ekki fá bankalán til að fleyta sér yfir tímabundna erfiðleika  eiga í fá hús að venda. Viðskiptabankarnir hafa ekki sömu möguleika að koma til móts við þá og áður.  Þeir munu því í vaxandi mæli leita aðstoðar hjá opinberum aðilum.  Full ástæða er til að meta áhrif laganna á samfélagið allt. Mestu máli skiptir að hjálpa fólki til sjáfsbjargar fremur en að fjölga í flokki þeirra, sem ekki geta bjargað sér sjálfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir umfjöllunina, Áslaug. Þú skrifar: "Mestu máli skiptir að hjálpa fólki til sjálfsbjargar fremur en að fjölga í flokki þeirra, sem ekki geta bjargað sér sjálfir." Það er sjálfsagt að gæta þess að forræðishyggjan gangi ekki of langt. En við megum ekki gleyma því að of mikið frelsi leyddi til þess að þjóðin gat ekki bjargað sér sjálf og þurfti að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þetta er allt spurning um jafnvægi, eins og flest annað.  

Wilhelm Emilsson, 15.11.2013 kl. 01:06

2 Smámynd: Áslaug Friðriksdóttir

Einmitt, og gott mál nema þegar svo stór hluti fjölskyldna lokast inni í vanskilum og erfiðleikum. 28 þúsund einstaklingar á vanskilaskrá og einhvers staðar heyrði ég að það gætu verið um 20 þúsund sem ná ekki lánshæfismati miðað við áætlað skor meðalbanka.

Áslaug Friðriksdóttir, 15.11.2013 kl. 15:32

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir svarið.

Lögin auka neytendavernd, eins og þú bendir á, og þau auka einnig kröfur um lán- og greiðslugetu. Ef þessir stuðlar eru skynsamlegir, þá kemur það heiðarlegum lánastofnunum, lántökum og ríkinu til góða, að mínu mati. Ef menn taka lán án þess að tryggt sé að þeir geti greitt þau er það ekki líklegt til að fólk verði fjárhagslega sjálfstætt. Að endingu kemur að skuldadögum.

Þessir 20 þúsund einstaklingar sem þú nefnir, er það fólk sem nær ekki lánshæfnismati fyrir íbúðarkaupum? Þegar tölur liggja á hreinu þarf auðvitað að líta á þann vanda sem lögin geta skapað. ASÍ hefur bent á að þessi nýju lög muni auka eftirspurn eftir leiguíbúðum.

En ef fólk hefur ekki efni á húsi eða íbúð þá er það staðreynd sem verður að horfast í augu við. Að lána fólki fyrir húsum og íbúðum sem það hefur ekki efni á að borga var tíðkað í Bandaríkjunum og á ísland og við vitum hverjar afleiðingarnar af slíkri stefnu er.

Það er að sjálfsögðu jákvætt að þú bendir á þá erfiðleika sem geta fylgt þessum nýju lögum og að benda á takmörk forræðishyggju. En yfirhöfuð held ég að hugmyndin með lögunum sé skynsamleg vegna þess að þau bregðast við vanda sem frjálshyggja skapar.

Þegar reynsla er komin á lögin er svo sjálfsagt að staldra við og sjá hvort það þarf að fínpússa eitthvað í þeim.

Wilhelm Emilsson, 15.11.2013 kl. 19:22

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Skilgreindu viðskiptabanka kæri frambjóðandi og settu svo greinarkorn þitt í samræmi við það.

Ekki ein einasta króna almennings, sem enn heldur að bankarnir séu "seif", er tryggð, sé hún geymd í "banka". Hérlendir bankar eru skólprennur hrægammasjóða sem,..........einn góðan veðurdag, alveg eins og kaninn.......hverfa.

Gerir almenningur á Íslandi sér enn ekki grein fyrir því að ALLAR KRÓNUR Í BÖNKUNUM ERU EKKI TRYGGÐAR LENGUR, því bankarnir eru ÞROTABÚ! og hafa verið í rúm fimm ár?

Hver geymir ævisparnaðinn í þrotabúi, nema alger bjálfi?

Hvar geymir frambjóðandinn sparnaðinn sinn?......ef einhver er.

Kveðja að sunnan og góðar stundir.

Halldór Egill Guðnason, 16.11.2013 kl. 04:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband