Menning eða ekki menning

Egill Helgason fer fram á í blog færslu að við tökum til máls um menningarmál.  Auðvitað - skárra væri það nú þegar menningin er annars vegar. Hann reyndar vísar í hugtakið  borgaralega menningu en ég ætla ekki að fjalla um það. Almennt lít ég ekki á menningu sem annars vegar borgaralega- og hins vegar einhvern veginn öðruvísi.

Mér sjálfri þykir margir of gjarnir á að benda á menninguna sem eitthvað gagnslaust fyrirbæri sem auðvelt er að skera niður til að bjarga einhverju öðru. Auðvitað er þó alltaf  sjálfsagt að skoða hvort hægt er að hagræða eða samreka stofanir sem jafnvel starfa oft í nágrenni hvort við aðra en önnur rekin af ríki og hin af sveitarfélögum. Alltaf má bæta úr því hvernig við förum að því að styrkja. Í Reykjavíkurborg er þetta vel gert að mínu mati, þar byggjum við á verkefnastyrkjum að frumkvæði þeirra sem eitthvað vilja gera fyrir borgina og er í anda menningarstefnunnar okkar.

Útgerðin hefur verið okkar lifibrauð í gegnum tíðina. En það var líka svo að hafnirnar voru byggðar úr sameiginlegum sjóðum og þær leiddu til þess að til varð grunnur fyrir ennþá meiri verðmætasköpun. Það sama sé ég þegar kemur að rekstri mikilvægra safna eða styrkja til verkefna. Söfnin, bókasöfn og listasöfn eru mikilvægur grunnur og þau ýta undir enn meiri grósku í grasrótinni í kring. Stuðningur við menningu hefur leitt margt gott af sér. Stuðningur við menningarverkefni í Reykjavík er hrein og klár fjárfesting að mínu mati,  sem líta má á sem lið í því að gera borgina aðlaðandi og spennandi. Hvða ríkið varðar er þetta aðeins flóknara.

Markalínan - listamenn gegn landsbyggðinni verður harðari þegar gengdarlaust er skorið niður til dæmis til heilbrigðismála á landsbyggðinni þar sem bæjarfélögin að sjálfsögðu finna strax fyrir slíku mun meira en þeir sem búa í þéttari kjörnum. Auðvitað kemur þá upp spurningin um hvort ekki væri nær að sleppa því að greiða til reksturs sem ekki nýtist fólki sem býr við þær aðstæður, vildi ekki missa þjónustu úr bæjarfélaginu og getur hvort sem er ekki notið menningarstarfseminnar sem rekin er annars staðar. Þetta geta allir vel skilið og hugsanlega er kominn tími til að ræða þetta með öðrum hætti. Ég get samt ekki tekið undir það að það þurfi að þýða að teboðshreyfingin sé að hösla sér völl innan Sjálfstæðisflokksins.

Þá verður hins vegar aftur að fara í gegnum það að menningarstarfsemi er ekki bara kostnaður heldur uppbygging tækifæra og okkur hefur oft á tíðum tekist að nýta þau. Ekki væri hægt að reka kvikmyndaiðnað hér á landi nema einhverjir kynnu til verka, ekki er hægt að halda uppi faginu nema að nóg sé að gera.  Til að mynda má  segja að það hafi borgað sig að veita í sjóði sem styrkja kvikmyndagerð því þeirra vegna gátum við tekið á móti þeim vexti sem nýverið varð. Margt annað svona má ræða. Svo eru aðrir þættir eins og til dæmis gróskan í tónlistarlífinu. Það má alveg deila um hvort að opinberir styrkir hafi haft eitthvað að segja um velgengni tónlistarmanna, hins vegar er ljóst að sú list er orðin mjög mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og mikil landkynning. 

Fyrirtækjarekstur miðast við að gera hluti sem skila auðsýnilegum verðmætum eða umbótum og fjármagnið hefur ekki tíma til að taka mikinn sjéns á að eitthvað skili sér eða ekki. Opinber rekstur hefur ekki verið alveg eins hreinn hvað það varðar og að sjálfsögðu er um þolinmóðara fjármagn að ræða. Margar greinar eiga langt í land með að geta bent á afrakstur sinn með tölulegum hætti og því er tekist á um þau mál. Einfalt er að sjá að þegar ekki er læknishjálp er sá sem þarf á henni að halda ekki í góðri stöðu, erfiðara getur verið að sjá hvort niðurgreiðsla til tónlistarnáms skili okkur hæfari einstaklingum til framtíðar.  

Hef þetta ekki lengra að sinni en gæti svo sem setið hér endalaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrafn Arnarson

Á íslensku er talað um að hasla sér völl ;)Ágúst Einarsson hagfræðingur hefur ritað margar bækur um menningarhagfræði. Get mælt með þeim.

Hrafn Arnarson, 13.11.2013 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband