Reykvíkingar fá reikninginn

Ég var að koma af borgarstjórnarfundi þar sem farið var í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun. Í raun er með ólíkindum hversu slappt frumvarpið er. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendum eftirfarandi frá okkur eftir fundinn.  
 
Reykvíkingar fá reikninginn 
Meðalfjölskylda í Reykjavík mun á næsta ári greiða rúmlega 440 þúsund krónum meira í skatta og gjöld til Reykjavíkurborgar en hún gerði í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. 
 
Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur þannig reynst fjölskyldum í Reykjavík dýrkeyptur. Allt kjörtímabilið hefur borgarstjórnarmeirihlutinn seilst í vasa borgarbúa í stað þess að hagræða í rekstri eins og fjölskyldur og fyrirtæki hafa orðið að gera. Frá því að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar tók við árið 2010 hafa skatttekjur hækkað verulega eða um 26%. Þær voru tæpir 50 milljarðar árið 2010 en eru áætlaðar 63 milljarðar á næsta ári samkvæmt áætluninni. 
 
Flókið og þungt borgarkerfi eftir fjölmargar skipulagsbreytingar er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Lítið hefur verið hagrætt, þvert á móti eykst kostnaður víða. Meirihlutinn hefur fundið upp á mörgum nýjum verkefnum og hlaðið utan á kerfið þannig að það vex ár frá ári og kostnaður eykst.
 
Skuldir rúmlega tvöfaldast 
Skuldabyrði borgarsjóðs hefur aukist mikið undir stjórn núverandi meirihluta eða um 115%. Frá árinu 2010 hafa hreinar skuldir borgarsjóðs vegna A-hluta hækkað um 26 milljarða króna eða úr 23 í 49 milljarða. Aukningin nemur 6,5 milljörðum króna á ári frá árinu 2010, sem jafngildir því að allt kjörtímabilið hafi skuldir aukist um 750 þúsund kr. á klukkustund. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir fjármálastjórn meirihlutans í borgarstjórn. 
 
Fjárhagsáætlanir meirihlutans standast ekki 
Reykjavíkurborg hefur verið rekin með tapi undir stjórn Samfylkingar og Besta flokksins þrátt fyrir að í fjárhagsáætlunum meirihlutans hafi verið lagt upp með háleit markmið um rekstrarafgang. Á síðasta kjörtímabili skilaði rekstur Reykjavíkurborgar hins vegar afgangi undir forystu Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífi. 
 
Til að breiða yfir lélega fjármálastjórn, leitast borgarstjórnarmeirihlutinn við að fegra niðurstöður rekstrarins með tilfærslum á rekstrareiningum. Til dæmis ætlar meirihlutinn nú að færa eignir og rekstur Bílastæðasjóðs úr B-hluta yfir í A-hluta, að því er virðist eingöngu í því skyni að fegra stöðu borgarsjóðs og gera samanburð á fjármálum borgarinnar á milli ára erfiðari en ella. 
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Áslaug;

Það var gaman að fylgjast með ykkur stöllum á Hrafnaþingi á föstudaginn var.  Það er ljóst af því, sem þá var sagt, og af því, sem hér að ofan stendur, að hjá Reykjavíkurborg ríkir alger óstjórn og sukk með skattfé borgarbúa.  Það er í raun enginn (með viti) við stjórnvölinn, en embættismenn starfa aðhaldslitlir.  Lagzt er í hernað gegn einkabílnum, t.d. með trúðslegum framkvæmdatilburðum við Hofsvallagötuna. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að finna aðferð til að ná eyrum borgarbúa fyrir þessi einföldu sannindi: skessur (einnig í upphlut) leika sér með fjöregg borgarinnar (og þar með landsins).

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 29.10.2013 kl. 21:24

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ég veit að fjármál borgarinnar eru ekki góð. ég tel víst að svo hefði líka verið þótt þú hefðir verið í 'stjórn'. en segðu mér hvernig þú hefðir EKKI "seilst í vasa borgarbúa" en hagrætt í rekstri til að fá aðra niðurstöðu en er í dag?

Rafn Guðmundsson, 30.10.2013 kl. 11:56

3 Smámynd: Áslaug Friðriksdóttir

Sæll Rafn, ég hef einmitt verið að skrifa um hvernig ég hefði farið að því. Bendi á fyrri blog mín hvað það varðar. Með sama fé má svara meiri þörf ef betur er haldið á spilunum - vel má sleppa gæluverknum og mörgum miðlægum verkefnum með því að taka annan pól í hæðinna í stjórnuninni. Vestu kveðjur, ÁF

Áslaug Friðriksdóttir, 30.10.2013 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband