Að skipta sköpum

Í heiðni var talið að skapanornir réðu því hvernig mönnum vegnaði í lífinu. Orðatiltækið að skipta sköpum þýðir að örlögum nornanna má breyta. Fjölmargar vísbendingar liggja nú fyrir og benda okkur á að gera eitthvað sem skiptir sköpum. Ef okkur tekst ekki vel upp þá siglum við inn í tímabil stöðnunar og hrakandi lífsgæða. Örlagavaldarnir sem við ættum því nú að biðla til eru menntun, nýsköpun og vísindi.

Hámarksnýting
Fjárveitingar til rannsókna og nýsköpunar verða að nýtast sem best. Samhæfa þarf umhverfi ríkisstofnana, þar á meðal háskólanna og ryðja þeim hindrunum úr vegi sem nú koma í veg fyrir sveigjanleika í stjórnun og verkefnum þeirra sem stunda rannsóknir og þróun. Mikilvægt er að ekkert í rekstrarumhverfinu hamli samstarfi.

Hraðari verðmætasköpun
Þrátt fyrir góðan afrakstur vísindastarfs og að meira fé sé varið til málaflokksins en í mörgum samanburðarlöndum er verðmætasköpun ekki eins hröð og ætla mætti hér á landi. Því er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum mun markvissar á markaðslegum forsendum til að stuðla að örari þróun.

Þá ber að nefna að Sjálfstæðisflokkurinn vill að þeir sem stunda rannsóknir, háskólar, fyrirtæki og einstaklingar, fái að njóta sjálfsaflafjár á sambærilegan hátt og gerist annars staðar. Slíkt myndi gera íslensku rannsóknarumhverfi kleift að standa jafnfætis erlendri samkeppni og samstarfi.

Rétt stefna að góðri uppskeru

Fyrir rúmum áratug var mörkuð stefna í þessum málum einmitt af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Afraksturinn varð samningur milli ríkis og háskólafólks. Þar var rétta stefnan tekin. Það mikilvæga er nú að vísbendingar eru um að áhugi fjárfesta sé vakinn og fjármagn vilji inn í landið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað sér skýra stefnu hvað örlagavaldana: menntun, nýsköpun og vísindi, snertir og vill vinna áfram að góðri uppskeru. Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn á laugardaginn skiptir því sköpum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband