2 milljarðar að óþörfu - getur það verið?

Fréttirnar af hrikalegu ástandi húss Orkuveitunnar eru sorglegar. Tjónið er gríðarlegt. Fram hefur komið að um verulegar fjárhæðir  er að ræða og að kostnaðurinn verði minnst um 1.700 milljónir. Ekki er víst hvort tjónið er að völdum byggingargalla eða skorts á viðhaldi en framundan er rannsókn málsins. 

Í því samhengi kemur upp annað athyglisvert mál. En það snýst um hvort að meirihlutinn í Reykjavík hafi vísvitandi skellt 2 milljarða króna kostnaði á borgarbúa án þess að láta reyna á aðrar og ódýrari leiðir. 

Málið snýst um hvernig staðið var að sölunni á Orkuveituhúsinu. Þar var á ferðinni algjör málamynda kaupsamningur. Varla er hægt að tala um kaupsamning því að gjörningurinn er miklu frekar lánasamningur, þó að það hafi ekki verið viðurkennt á sínum tíma. Og það afar óhagstæður lánasamningur. 

Þið munið Planið. Planið var neyðaráætlun í rekstri Orkuveitunnar. Planið var hinn heilagi kaleikur meirihlutans í Reykjavík sem meðlimir hans gripu jafnan til þegar þeir rökræddu um fjármálasnilli sína. Reyndar, var Planið í flesta staði alveg ágætis áætlun og eftir því var unnið, skuldir greiddar niður, hagrætt og sparað. Allt virtist ætla að ganga upp. Nema eitt. Og það var liðurinn "eignasala". Eignasalan gekk ekki nógu vel. Og þá kemur að því sem athygli ætti að beinast betur að en það eru samningarnir sjálfir. 

Spyrja verður hvort eðlilegt hafi verið að meirihlutinn samþykkti að leggja þann gríðarlegan kostnað á fyrirtækið og þar með borgarbúa þar sem lánasamningarnir voru það óhagstæðir í stað þess að leita leiða til að fjármagna áætlunina frekar með lánum á betri kjörum. En líklegt verður að teljast að lánakjör sem staðið hafi Reykjavíkurborg til boða á þessum tíma hafi verið um 3%. Leigusamningurinn felur í sér miklu meiri kostnað. En mismunurinn á láni með 3% vöxtum og leigusamningnum sem í gildi er nemur 2 milljörðum á samningstímanum. 

Og þá kemur aftur að þeirri grafalvarlegu spurningu um hvort meirihlutinn í Reykjavík hafi án þess að leita allra mögulegra annarra leiða, samþykkt að ganga til samninga um slíkan málamyndagjörning. Er hugsanlegt að orðspor Plansins hafi verið meirihlutanum það verðmætt að því var sleppt? 

 


Bloggfærslur 5. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband